132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[13:45]
Hlusta

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Var hv. þingmaður ekki bara að grínast? Ég vona að svo hafi verið, ég vona að þetta hafi bara verið eitthvað til að létta lund okkar þingmanna. Er hv. þingmanni alvara? Hann hefur setið fundi félagsmálanefndar, farið yfir þetta mál ásamt okkur og segir hér, orðrétt, að það sé ekkert um það hvernig þau sérlög eigi að vera. (Gripið fram í.) Já, virðulegur forseti, hv. þingmaður segir bara að þau eigi að samþykkjast. Þetta er engin smáfrétt sem kemur hér á lokadegi þingsins.

Ef þetta er rétt, virðulegi forseti, (Gripið fram í.) hafa forustumenn Alþýðusambandsins sest niður með félagsmálanefnd og sagt okkur ósatt. Forustumenn Samtaka atvinnulífsins hafa sest niður með félagsmálanefnd og sagt henni ósatt og allt þetta mál er á misskilningi byggt, ef það er satt sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði. Hann sagði að í þessu samkomulagi væri ekkert um hvað ætti að vera í þessum sérlögum, bara ekki neitt, að við ætlum bara að samþykkja sérlög. (Gripið fram í.) Kannski sönglög líka.

Virðulegi forseti. Þessi málflutningur er náttúrlega algjörlega fráleitur. Það er búið að fara yfir þetta, einn hv. þingmaður, ég man nú ekki hver það var, fór yfir það að hjá félagsmálanefnd hefðu farið 10 tímar í að fara í gegnum þetta mál með þeim aðila sem gerði þetta samkomulag, nokkurn veginn hverja einustu setningu. Svo kemur hv. þm. Össur Skarphéðinsson hér og segir að í samkomulaginu hafi ekkert verið um það hvað ætti að vera í sérlögunum. Það er náttúrlega fyrir neðan allar hellur.