132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[14:31]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Það hefur verið athyglisvert að hlýða á umræðuna í dag um frumvarp til laga um starfsmannaleigur. Hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur talað um að stjórnarandstaðan sé að beygja sig í duftið gagnvart einhverju samkomulagi sem gert hafi verið á kontór úti í bæ og býsnast yfir uppurðarleysi stjórnarandstöðunnar gagnvart þessu samkomulagi.

Hins vegar talaði samflokksmaður hans, Guðlaugur Þór Þórðarson, hér fyrr í dag og spurði með hneykslan og forundran hvort stjórnarandstaðan og Samfylkingin ætluðu virkilega að koma með einhverjar breytingartillögur og ganga gegn verkalýðshreyfingunni í þessu máli. Það rekur sig greinilega hvað á annars horn í málflutningi stjórnarliða og samflokksmannanna, sjálfstæðismannanna Péturs H. Blöndals og Guðlaugs Þórs Þórðarsonar í þessu efni.

Hið rétta í málinu er að stjórnarandstaðan, Samfylkingin, ætlar hvorki að beygja sig í duftið gagnvart einhverju samkomulagi frá kontór úti í bæ, eins og það var orðað, né heldur ætlar hún að ganga gegn verkalýðshreyfingunni eða aðilum vinnumarkaðarins í þessu máli. Staðreynd málsins er einfaldlega sú að höfum við kallað eftir og átt frumkvæði að löggjafarstarfi sem snýr að starfsmannaleigum undanfarin tvö ár. Það er einnig staðreynd að verkalýðshreyfingin hefur kallað eftir því að sett yrðu lög um starfsmannaleigur og hefur gert það núna í tvö ár þannig að við hljótum að fagna því að nú liggur frumvarp til laga um starfsmannaleigur fyrir í þinginu og er að verða að veruleika þó að við getum haft ýmislegt við það að athuga.

Þess vegna vil ég líka halda því hér til haga að það eru þrír aðilar að því samkomulagi sem samið var á kontór úti í bæ, eins og það er orðað. Það eru Samtök atvinnulífsins, það er ASÍ og það er ríkisstjórnin. Þetta eru þeir þrír aðilar sem hafa samið um málið og ríkisstjórnin er auðvitað jafnskuldbundin af þessu samkomulagi og ASÍ og Samtök atvinnulífsins og menn hljóta að standa við það samkomulag sem þeir gera.

Stjórnarandstaðan er ekki aðili að þessu samkomulagi, hún var ekki spurð hvernig þetta frumvarp ætti að líta út og það er því eðlilegt að hún haldi á lofti sjónarmiðum sem hún hefði talið nauðsynlegt að skiluðu sér inn í þetta frumvarp og það er líka eðlilegt að hún komi hér með tillögur til breytinga á frumvarpinu, hún hefur að sjálfsögðu fullan rétt til að gera það.

Ég ætlaði reyndar ekki að tala bara um þetta. Mig langar til þess að segja um þetta frumvarp að ég fagna því að það er komið fram, ég mun styðja það, en ég tel að það hefði átt að ganga heldur lengra í því en gert er hér. Ég tel t.d. að það hefði mátt skoða, og kannski hefur það verið gert en einhverra hluta vegna varð það ekki að veruleika í þessu frumvarpi, að starfsmannaleigur væru starfsleyfisskyldar. Hér er ekki um að ræða viðskipti með vörur, þetta eru ekki bara venjuleg vöruviðskipti sem eiga sér stað þegar um starfsmannaleigur er að ræða, hér er um að ræða viðskipti með fólk. Þess vegna tel ég að það þurfi að gera ríkari kröfur til þeirra en gert er í þessu frumvarpi. Ég held að slíkar kröfur vegi ekki að sveigjanleika heldur geti kannski stuðlað að því starfsmannaleigurnar sem hér starfa umgangist þetta launafólk, sem þær eru m.a. að flytja hér til landsins, af meiri virðingu en þær gera. Það er mikill misbrestur á því að þær umgangist þetta fólk af virðingu og virði réttarstöðu þess og kjör, og ég er ekki viss um að við náum alveg utan um það í þessu frumvarpi. Ég er samt sem áður sannfærð um að það er til bóta að það verði að veruleika, það er til bóta að fulltrúi fyrirtækis skuli vera sérstaklega skráður, það er til bóta að það eigi að gera skriflega ráðningarsamninga. Það er til bóta að hægt sé að hafa slíkt eftirlit með þessum starfsmannaleigum eins og hér er gert ráð fyrir að Vinnumálastofnunin geri, þannig að margt er hér fært til betri vegar.

Það er í rauninni þyngra en tárum taki að sjá hvernig sumar þessar starfsmannaleigur umgangast sitt fólk. Ég fékk upp í hendurnar í gær mjög gróft dæmi um það frá Verkalýðsfélaginu Hlíf í Hafnarfirði og Félagi iðn- og tæknigreina. Það er um starfsmannaleigu sem var sett á laggirnar hér eins og hendi væri veifað í sumar til þess að flytja inn bæði ófaglært fólk og iðnaðarmenn til þess að vinna fyrir fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu, þetta er ekki Kárahnjúkamál, hér er um höfuðborgarsvæðið að ræða. Hér á landi hafa verið á bilinu 80 til 120 manns á vegum þessarar starfsmannaleigu. Flestir eru þetta iðnaðarmenn og ófaglærðir verkamenn frá Austur-Þýskalandi sem hafa verið fluttir til landsins.

Þessi starfsmannaleiga hefur greitt þessum mönnum upp í laun fyrir októbermánuð, hún hefur ekkert greitt þeim fyrir nóvembermánuð og ekkert það sem af er desember og litlar líkur eru á að þeir fái þau laun sem þeir ættu með réttu að fá. Það sem var greitt upp í launin hjá þessum mönnum var miðað við lágmarkstaxta, eða 988 kr. á tímann fyrir iðnaðarmenn, og síðan var lífeyrisiðgjald ofan á það, þeir fá um 1.250 kr. greiddar á tímann, þ.e. dagvinnutíma.

En þegar launaseðlar þeirra eru skoðaðir kemur hið ótrúlega í ljós. Á einum mánuði eru dagvinnutímarnir á einum launaseðli sem ég hef hér undir höndum 305, það eru 305 dagvinnutímar í einum mánuði, hvernig í veröldinni sem það getur gerst að hægt sé að vinna 305 dagvinnutíma í mánuði þegar aðeins eru 173,33 dagvinnutímar jafnaðarlega í hverjum mánuði. Þessum mönnum var sagt að á Íslandi væru laugardagar almennir vinnudagar þannig að ekki ætti að greiða neitt sérstakt álag fyrir laugardagana. Þeir hafa verið að vinna hér helgar og kvöld og þetta eru launagreiðslurnar sem þeir fá.

Þetta fyrirtæki hefur tekið af mönnum bæði í lífeyrissjóð og staðgreiðslu skatta. Það hefur haldið eftir um 30 millj. kr. í staðgreiðslu skatta og hefur ekki skilað því. Það hefur haldið 10 milljónum í lífeyrisiðgjöld og ekki skilað því.

Núna eru þessir menn að fara heim, fengu eins og ég segi borgað upp í launin fyrir októbermánuð, og eru að fara heim til Austur-Þýskalands. Sumir eru farnir en aðrir hafa beðið í viku eftir að fá uppgjör frá fyrirtækinu og hafa ekki fengið, annar hópur fer heim 16. desember og sá þriðji 23. desember. Þeir fara héðan slyppir og snauðir og þeir eiga ekki einu sinni fyrir lestarmiðanum heim til sín þegar þeir koma til Þýskalands. Þeir eiga ekki fyrir olíu til kyndingar þegar þeir koma heim til sín. Þessir menn voru á atvinnuleysisskrá í fyrrverandi Austur-Þýskalandi, komu hingað til þess að reyna að komast í uppgrip, reyna að vinna sér inn einhverjar tekjur en þeir fara heim til sín aftur núna fyrir jólin slyppir og snauðir. Þeir eru í rauninni verr settir þegar þeir fara héðan en þeir voru þegar þeir komu, vegna þess að þegar þeir fóru að heiman duttu þeir út af sjúkraskrám í Þýskalandi en þeir hafa ekki komist inn á sjúkraskrár hér, þeir eru ekki sjúkratryggðir á Íslandi af því að þeir eru ekki með lögheimili hér. Fyrir því liggur niðurstaða hjá Tryggingastofnun ríkisins að þeir eru skráðir í svokallaðri utangarðsskrá og hafa þar af leiðandi ekki getað fengið sjúkratryggingu. Eftir því sem mér skilst þýðir það að fjölskyldur þeirra í Þýskalandi eru ekki heldur sjúkratryggðar vegna þess að þetta tengist jú þátttöku á vinnumarkaði í Þýskalandi.

Þannig dæmi blasa við okkur hérna að einstaklingar, sem sumir hverjir eru kannski ekki með glæsilegan feril í atvinnulífinu að baki, setja hér upp starfsmannaleigur eins og hendi sé veifað, flytja inn 100 manns frá Þýskalandi og koma fram við þá með þessum hætti og síðan verða mennirnir að hverfa héðan af landi brott verr settir en þeir voru þegar þeir komu hingað.

Þetta eru ljótar sögur sem við höfum verið að heyra um þessi fyrirtæki og þó að eflaust ætti þetta fólk rétt í Ábyrgðasjóð launa ef fyrirtækið verður gjaldþrota, sem ég ætla ekki að fullyrða á þessari stundu en mér þykir ekki ólíklegt, þá þarf auðvitað að reka það mál og slíkt tekur langan tíma og þessir menn eru ekki á staðnum til þess að gæta hagsmuna sinna.

Ég óttast að við náum ekki alveg utan um þessi mál í því frumvarpi sem hér liggur fyrir og þess vegna er auðvitað mikilvægt að við höfum ákvæði inni í frumvarpinu um endurskoðun laganna innan tveggja ára til þess að við fáum reynslu á þetta og sjáum hvernig til hefur tekist í þessu sambandi. En miðað við frumvarpið eins og það liggur hér fyrir er auðvitað hægt að setja upp starfsmannaleigur bara með átta daga fyrirvara, þær eru ekki starfsleyfisskyldar, það eru engar tryggingar sem liggja til grundvallar þó að það sé verið að flytja fólk inn til landsins. Það hefur verið bent á að ferðaskrifstofurnar okkar sem eru að senda fólk úr landi í sumarleyfi þurfi að leggja fram tryggingar til þess að sannanlegt sé að þær geti komið fólkinu heim aftur, en starfsmannaleigur sem eru að flytja fólk inn til landsins þurfa ekki að leggja fram neinar slíkar tryggingar.

Nú eru eflaust ýmis vandkvæði á til þess að ná utan um þetta mál og auðvitað þarf að huga að því að þetta verði ekki íþyngjandi fyrir almenna verktakastarfsemi í landinu, það þarf að vera hægt að gera einhvern greinarmun þarna á milli. En mér finnst mikilvægt fyrir okkur og mér finnst það snúast um sómatilfinningu okkar Íslendinga að við reynum að haga þessu máli þannig að við misbjóðum ekki erlendu verkafólki sem við flytjum til landsins með því að koma fram við það með þeim hætti sem við erum með allt of mörg dæmi um, uppsöfnuð dæmi á undanförnum mánuðum.

Virðulegur forseti. Mér fannst ástæða til þess að greina frá þessu máli sem mun væntanlega verða opinbert nú um eða eftir helgina því að það eru auðvitað mál af þessu tagi sem við þurfum að reyna að ná utan um í þeirri lagasmíð sem hér er á ferðinni og ég hef vissar efasemdir um að það takist til fulls. Hins vegar er hinn mikilvægi þáttur málsins sá að við erum þrátt fyrir allt að sjá hér frumvarp til laga um starfsmannaleigur, það er verið að svara því kalli sem verkalýðshreyfingin hefur verið með undanfarin tvö ár, að vissu leyti er verið að svara kröfu stjórnarandstöðunnar hér á þingi á undanförnum tveimur árum og síðan stendur það bara upp á okkur sem sitjum á þingi að fylgjast með hvernig framkvæmdin verður og gera á þessu þær breytingar sem þarf að gera ef upp koma ágallar í framkvæmdinni.