132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[15:00]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir skilur þýðingu málsins en ég var einmitt að hamra á því vegna prinsippsins, vegna framtíðarinnar, að menn sæju sóma sinn í því og skildu hversu miklu það varðaði að slíkir hlutir gengju fram. Auðvitað hefur enginn meinað stjórnarandstöðunni að hafa hvaða meiningar eða skoðanir sem hún vill. Það datt engum manni í hug, það hefur hvergi komið fram. En hv. þingmaður sagði sjálf í ræðu fyrir 10–15 mínútum að hún skildi mætavel að ríkisstjórnin yrði að tryggja að samkomulagið gengi fram eins og frá því var gengið í hinum þríhliða niðurstöðum þessara þriggja aðila.

Til hvers er þá breytingartillagan flutt? Hv. þingmaður skilur að frumvarpið verður að ganga fram eins og frá því var gengið í samkomulagi þessara þriggja aðila. Hún sagði það áðan. Hún skilur það. Til hvers eru þá breytingartillögurnar fluttar? (Gripið fram í: Eðlileg spurning.) Þær eru fluttar bara af sýndarmennsku. Ég sagði að þetta væri tvöfaldur mórall og mér finnst það. Ég held að menn eigi ekki að vera með sýndarmennsku þegar við ræðum frumvörp sem eru svona til komin.

Allir eiga að skilja það núna og líka í framtíðinni, því það kemur ríkisstjórn eftir þessa ríkisstjórn og ríkisstjórn eftir þá ríkisstjórn o.s.frv., að þýðingarmikið samkomulag eins og þetta sem kann að vera gert af hvaða ríkisstjórn sem er á hverjum tíma við aðila vinnumarkaðarins þarf að fá stuðning þingsins.