132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[15:12]
Hlusta

Frsm. félmn. (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get ekki fallist á þá túlkun að ég sé að mæla eitthvað á móti hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni. Hann var einmitt að ræða um grundvöllinn að lagafrumvarpinu, þ.e. þetta þríhliða samkomulag. Við erum einmitt að vinna að því og ætlum að afgreiða hér á eftir. Hins vegar vil ég ekki ljúka umræðunni þannig að menn telji að aðilar vinnumarkaðarins hafi stillt félagsmálanefnd upp við vegg af því að þeir gerðu það ekki. Þeir sögðu: Auðvitað virðum við löggjafann en við gerðum þetta samkomulag. Við biðjum ekki um breytingar af því að við erum trú þessu samkomulagi. En stjórnarandstaðan flytur breytingar. Gott og vel. Henni er það frjálst en þær breyta eðli málsins, það eru grundvallarbreytingar. Við erum trú þessu samkomulagi. Ég tel það vera skynsamlegt. Reyndar er þetta nýtt mál, ný lög, þannig að það er eðlilegt að endurskoða lögin innan tveggja ára. Þess vegna flytjum við þá breytingartillögu en í heild er málið mjög jákvætt á þeim nótum sem aðilar vinnumarkaðarins sömdu um við ríkisvaldið.

Ég ber mikla virðingu fyrir aðilum vinnumarkaðarins. Mér finnst það, eins og ég orðaði í morgun, mjög sjarmerandi, mér finnst það mjög flott að aðilar vinnumarkaðarins beri þetta mikla ábyrgð og geti samið, en þá verða þeir líka að trúa því að þeir hafi bakland í ríkisstjórninni þegar gengið er frá samkomulagi og það bakland kemur í ljós seinna í dag.