132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[15:14]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Ég hélt ræðu áðan og hef vanist því hér á þinginu að þegar menn hefðu einhver andsvör við ræðum mínum færu menn upp í andsvör við þá ræðu en ekki við einhvern allt annan með andsvör sín. Það er því nauðsynlegt að fara aftur í gegnum ræðuna úr því að hún komst ekki til skila í fyrsta skipti enda liggur Alþingi ekkert á að fara í jólafrí að mínu viti.

Ég fór yfir það að við eigum langa sögu að baki að ríkisstjórnir Íslands, mjög margar ríkisstjórnir, hafa komið og staðið fyrir samkomulagi á vinnumarkaði. Þó að sumir séu á móti slíku samkomulagi og telji rangt að ríkisstjórnin komi nálægt því er það flestra manna mál sem ég þekki að það hefur oftast haft gæfu í för með sér. Ég vil líka trúa því að þetta sé ekki síðasta samkomulagið sem ríkisstjórn Íslands gerir við aðila vinnumarkaðarins. Ég trúi því að menn muni halda áfram á þeirri farsældarbraut sem þeir hafa verið, bæði núverandi ríkisstjórn, sú sem kann að taka við af henni og sú næsta og næsta inn í framtíðina.

Ég fór áðan yfir það eins skilmerkilega og mér var unnt að ef slík samkomulög eiga að geta borið gæfu í framtíðinni væri mjög þýðingarmikið að traust aðila vinnumarkaðarins á þeirri ríkisstjórn sem væri að semja væri til staðar. Auðvitað liggur alveg fyrir að Alþingi er frjálst að því sem það samþykkir. Auðvitað getur enginn maður komið og kúgað alþingismenn. Auðvitað geta engin samtök komið og heimtað að Alþingi geri svona en ekki hinsegin enda hefur engum dottið það í hug. Frásagnir af komu aðila vinnumarkaðarins til félagsmálanefndar benda til hins gagnstæða. Þeir sögðu einmitt: Við viljum ekki gera neinar kröfur, við viljum ekki gera breytingartillögur, við virðum rétt Alþingis. En þeir virða líka það þríhliða samkomulag sem var gert við atvinnurekendur, vinnuveitendur, aðila Alþýðusambandsins og ríkisvaldið. Þess vegna lagði ég áherslu á að ég teldi það til framtíðar horft mjög þýðingarmikið að Alþingi á hverjum tíma legði sig fram um að slíkt samkomulag væri virt og staðfest í þinginu. Ég sagði ekkert annað. Hvað sem hv. þm. Mörður Árnason hefur heyrt var það örugglega ekkert annað sem ég sagði og þetta á að vera alveg skýrt. Ég vil ítreka það hér því ég heyrði á andmælum hans áðan við allt annan þingmann að hann hafði greinilega ekki tekið eftir því sem ég sagði og því endurtek ég það hér nú.