132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[15:29]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Breytingartillögur frá stjórnarandstöðu, við þær aðstæður að gert hefur verið þríhliða samkomulag milli verkalýðshreyfingar, atvinnurekenda og ríkisstjórnar, geta verið á hvorn veginn sem er og þar getur hallað á annan hvorn aðilann.

Það er t.d. mjög líklegt að þegar Samfylkingin kemst í ríkisstjórn og gerir slíkt samkomulag þá rísi upp sjálfstæðismenn úti í sal og vilji gera breytingartillögur sem dragi taum atvinnurekenda. Gott og vel. Þeir hafa fullan rétt til þess en það væri í okkar verkahring, sem þá verðum í ríkisstjórninni, að standa vörð um verkalýðshreyfinguna og fylgja eftir því samkomulagi sem við höfum gert.