132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum.

236. mál
[15:40]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Segja má að fyrirvari minn við málið lúti að efni þess og kringumstæðum núna og líka því hvernig stjórnvöld hafa staðið að málum að undanförnu. Þannig er að menn hafa haft langan aðlögunartíma að því að koma reglum um vinnutíma unglækna í skikkanlegt horf. Það hefur verið með öllu óforsvaranlegt hvernig að þessu hefur verið staðið og ætti ekki að þekkjast í nútímanum, vinnutími af því tagi sem þar hefur iðulega verið ástundaður. Það er ósköp einfaldlega ekki þannig sem við eigum að reka heilbrigðisstofnanir okkar að stunda hálfgert þrælahald á ungu fólki eins og þetta hefur í raun og veru verið. (Gripið fram í.) Það efast ég mjög um, hv. þingmaður, að menn vilji það þó þeir kannski láti sig hafa það nýkomnir út úr skólum, blankir og þurfandi fyrir tekjur á allra fyrstu árunum. En þetta er líka plagsiður, þetta er gamall ósiður sem menn hafa haldið í og jafnvel verið einhver furðuleg rómantík í kringum það að þetta sé eitthvað sem eigi að viðgangast, sem er auðvitað alveg fráleitt og ekki síst með tilliti til þess hvers eðlis störfin eru sem hér eiga í hlut. Getur nokkur maður mælt því bót að öll vinnutíma- og hvíldartímaákvæði séu gersamlega þverbrotin hjá starfsfólki í vandasömum og viðkvæmum störfum á heilbrigðisstofnun? Það er auðvitað algerlega fráleitt.

Ég er mjög ósáttur við að ekki skuli hafa verið tekið á þessu bæði fyrr og betur. Þetta hefur áður orðið deiluefni hér á þingi en stjórnvöld hafa skotið sér undan því að taka almennilega á þessum málum. Ég tel reyndar að stjórnendur ýmissa stærstu heilbrigðisstofnananna séu ekki alveg saklausir í þeim efnum heldur, hafi af einhverjum ástæðum talið sér henta að láta þetta mál dankast og framlengjast. Það hefur því gengið seint og illa að fá tillögur um hvernig ætti að vinna sig út úr þessu verkefni. Auðvitað hefur alltaf legið fyrir að æskilegast væri að gera það í skrefum, einhverjum áföngum þannig að þetta þyrfti ekki að leiða til snöggra breytinga í mönnun og rekstri spítalanna, en satt best að segja er þetta ekki slíkt stórmál að það eigi að hafa þurft að vefjast svona fyrir mönnum.

Ég benti t.d. á að úr því að hægt væri að uppfylla og hrinda í framkvæmd nýjum hvíldartímareglum fyrir lækna, þ.e. ekki unglækna heldur fastráðinna lækna á spítölunum, á t.d. lítilli deildaskiptri stofnun, litlu deildaskiptu sérgreinahúsi eins og FSA, hvers vegna í ósköpunum á það þá að vefjast fyrir mönnum að hrinda þessu í framkvæmd gagnvart þessum afmarkaða hópi, þ.e. unglæknunum? Og að það skuli sérstaklega hafa staðið á því að gera það á Landspítalanum, svona stórri stofnun þar sem eru miklu fjölmennari deildir og á að vera auðveldara að ráða við þetta á allan hátt, er auðvitað algerlega óskiljanlegt. Ég gagnrýni þessa frammistöðu, þetta sleifarlag. Það hefði einnig í þessum áfanga mátt taka betur á hlutunum og gera þetta að mínu mati hraðar en að gaufa með þetta fram undir lok þessa áratugar.

Að síðustu nefni ég að kannski hefur ekki verið haft eins náið samráð við samtök unglækna og æskilegt hefði verið um fyrirkomulagið á vinnutímanum, eins og reyndar er gert ráð fyrir í frumvarpinu. Þeir munu að vísu hafa komið sjónarmiðum sínum að gagnvart starfshópi sem unnið hefur að þessu máli á undirbúningsstigi og það er vissulega betur en ekki. Að mínu mati hefði verið eðlilegast að vinna þetta mál allt saman á öllum stigum í mjög nánu samráði við þá og það er meira hagur stjórnvalda að leita eftir slíku samstarfi við starfsmennina en öfugt, að þeir þurfi endilega á stjórnvöldum að halda í því tilviki.