132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Ábyrgðasjóður launa.

351. mál
[15:46]
Hlusta

Frsm. félmn. (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti hv. félagsmálanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 88/2003, um Ábyrgðarsjóð launa. Nefndarálitið er á þskj. 491. mál 351.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið gesti á sinn fund. Í frumvarpinu er lagt til að ábyrgðargjald hækki úr 0,04% í 0,1%. Þetta er óhjákvæmileg hækkun en eigið fé sjóðsins var uppurið í árslok 2003. Verði frumvarpið óbreytt að lögum er gert ráð fyrir að halla sjóðsins verði náð niður á sex árum ásamt því að sjóðurinn standi undir útgjöldum sínum. Ef ekkert verður að gert mun skuld sjóðsins við ríkissjóð nema um 2 milljörðum kr. að þessum sex árum liðnum.

Nefndin telur mikilvægt að unnið verði til samræmis við tillögur sem koma fram í úttekt sem Ábyrgðasjóður launa lét gera undir lok ársins 2004. Hún telur jafnframt nauðsynlegt að koma í veg fyrir óeðlilegt fjárstreymi úr sjóðnum og tryggja fjárhagsstöðu hans.

Rætt var í nefndinni um þörf á að gera breytingu á lögum um Ábyrgðasjóð launa til samræmis við frumvarp fjármálaráðherra, sem nú liggur fyrir þinginu, um breyting á lagaákvæðum um lífeyrissjóði og tengist samkomulagi aðila vinnumarkaðarins um hækkun iðgjaldagreiðslna til lífeyrissjóða. Á þessari stundu er ekki ljóst hvenær framangreint frumvarp nær fram að ganga og er því ekki gerð tillaga um breytingu á lögunum að svo stöddu.

Virðulegur forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann samþykkur áliti þessu.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt.