132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Fjarskiptasjóður.

191. mál
[15:59]
Hlusta

Frsm. samgn. (Hjálmar Árnason) (F):

Forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá hv. samgöngunefnd um frumvarp til laga um fjarskiptasjóð. Nefndin fjallaði ítarlega um þetta mál og fékk til sín fjölmarga gesti svo sem greint er frá á þskj. 523. Segja má að almenn ánægja hafi ríkt innan nefndarinnar um efni þessa frumvarps, enda lýtur það því að renna stoðum undir ályktun Alþingis frá því í vor um stefnu í fjarskiptamálum fyrir árin 2005–2010 en frumvarpið gerir ráð fyrir því að stofnaður verði sérstakur sjóður til að ráðstafa fjármunum samkvæmt áðurnefndri fjarskiptaáætlun.

Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir því að yfir sjóð þennan verði sett stjórn og ákveðið skipulag og jafnframt að sjóðurinn heyri stjórnskipulega undir samgönguráðuneytið.

Þá er rétt, frú forseti, að vekja athygli á því að ríkissjóður leggur sjóðnum til að stofni 2,5 milljarða kr. en stjórn sjóðsins er einmitt ætlað að úthluta þeim fjármunum til einstakra verkefna samkvæmt fjarskiptaáætlun og samkvæmt ákvæðum fjarskiptalaga.

Af hálfu nefndarinnar hefur verið lögð áhersla á að sjóðurinn standi straum af kostnaði við nauðsynlega uppbyggingu fjarskiptakerfis hér á landi og fyrst og fremst sé þá miðað við stofnkostnað. Nefndin leggur jafnframt á það ríka áherslu að við slíka úthlutun úr sjóðnum skuli menn gæta að samkeppnissjónarmiðum og að verklag við þá úthlutun verði afar skýrt.

Almenn samstaða ríkti um efni þessa frumvarps en þó gerir nefndin tillögu um eina breytingu sem lýtur að 7. gr. þar sem fjarskiptasjóði er ætlað að bera allan kostnað af starfsemi sinni. Nefndin leggur til að við verði bætt öllum kostnaði Póst- og fjarskiptastofnunar af starfsemi sem tengist verkefni sjóðsins, að sá kostnaður verði einnig greiddur úr sjóðnum.

Hv. þm. Jón Bjarnason sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu en þó með fyrirvara sem ég efa ekki eitt augnablik að hv. þingmaður muni gera rækilega grein fyrir hér á eftir. En undir þetta álit skrifa, auk þess sem hér stendur, hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson, Anna Kristín Gunnarsdóttir, Kjartan Ólafsson, Kristján L. Möller, Sigurrós Þorgrímsdóttir, hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson, sem einnig hefur fyrirvara, og Þórunn Sveinbjarnardóttir.

Nefndin leggur sem sagt til að frumvarpið verði samþykkt með þeirri breytingu sem ég gat um.