132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Fjarskiptasjóður.

191. mál
[16:04]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Virðulegi frú forseti. Ég er með fyrirvara við þetta nefndarálit um fjarskiptasjóðinn. Þarna er verið að stofna sjóð sem á að fara að taka á og draga í land verstu ágallana sem koma upp við sölu Símans. Þarna finnst mér vera farið að fara mjög aftan að hlutunum. Ef þjóðin hefði átt Símann áfram þá hefðum við getað beitt styrk hans til að tryggja öflugt fjarskiptakerfi um allt land og jöfnuð í þjónustu og verði.

Nú er verið að flytja frumvarp um vandræðamál, stofnun fjarskiptasjóðs, þar sem ríkið ætlar að koma inn til að styrkja framkvæmdir varðandi fjarskipti sem teljast ekki svo arðbærar að fjarskiptafyrirtækin vilji leggja í þær. Þetta er ekki svo einfalt mál. Hvaða arðsemiskröfu ætla fjarskiptafyrirtækin að gera? Hvenær getum við gert kröfu á ríkið? Þarna er ríkið sett í spennitreyju gagnvart fjarskiptafyrirtækjum sem starfa hér á fákeppni, ef ekki á einkamarkaði, því einokun í fjarskiptum er orðin einkavædd, og með því að segja að ekki sé nógu arðbært að stunda fjarskipti í einhverjum landshluta þá geta þau bara gert kröfu á ríkið og ríkið á ekki annarra kosta völ en að greiða, því ekki getur það farið að viðurkenna liðsmuninn.

Þessi sjóður er settur á stofn með nokkrum heimanmundi, reyndar bara eingreiðslu 2.500 millj. kr. sem fyrst í stað á að koma inn í hinar svokölluðu óarðbæru fjárfestingar í fjarskiptum. Ég tel þetta ranga nálgun en ég styð samt þessa viðleitni hjá ríkisstjórninni og met hana, viðleitni til þess að bæta fyrir annars vitlausa ákvörðun um sölu Símans.

Ég vil benda á að í umræðunni í nefndinni kom fram að fjarskiptafyrirtækin og fleiri gátu engan veginn séð hvernig ætti að framkvæma þetta. Þau vildu líka fá reksturinn. Það er ekki nóg að leggja bara í stofnkostnað, sögðu þau, við þurfum líka að fá rekstarfjármagn því ekki viljum við standa undir rekstri á einhverri óarðbærri fjárfestingu. Þannig að við stofnun þessa fjarskiptasjóðs rak sig eitt á annars horn.

Frú forseti. Ég styð samt viðleitnina þó að þarna sé hálfpartinn verið að koma aftan að hlutunum. Miklu betra væri ef þjóðin hefði átt sinn Síma og getað beitt honum með eðlilegum hætti til að byggja upp öflugt og gott fjarskiptakerfi um allt land á jafnræðisgrunni en þurfa ekki að fara þessa fjallabaksleið til að reyna að bjarga því sem bjargað verður í þeim efnum.