132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Málefni aldraðra.

174. mál
[16:16]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Við höfum verið að ræða frumvarp sem lagt er fram í þinginu á hverju einasta ári en það lýtur að því að hækka gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra. Það þarf að leggja fram lagafrumvarp m.a. vegna áskilnaðar stjórnarskrár um það.

Þingmenn Samfylkingarinnar eru með fyrirvara um nefndarálit frá heilbrigðis- og trygginganefnd um Framkvæmdasjóð aldraðra og sá fyrirvari lýtur einkum að því hversu mikið af tekjum sjóðsins fer í rekstur. Við höfum talið að þessi sjóður eigi að vera nýttur til uppbyggingar öldrunarstofnana, eins og hann var hugsaður í upphafi.

Mig langar líka að minna á að þegar Framkvæmdasjóður aldraðra var settur á laggirnar í upphafi var það í samstarfi við verkalýðsfélögin. Þetta var mjög mikilvæg leið og um hana náðist samkomulag á sínum tíma. Samkomulagið var á þeim tíma í þá veru að allir fjármunir sjóðsins ættu að fara í uppbyggingu. Núna fer um helmingur af því fé sem kemur í sjóðinn í rekstur en ekki einungis í uppbyggingu og það er að mínu mati óásættanlegt. Við höfum ítrekað bent á þetta og sömuleiðis Félag eldri borgara og Landssamband eldri borgara en þau telja að þetta fjármagn, þessi nefskattur eigi að fara í uppbyggingu öldrunarheimila en ekki í rekstur þeirra. Allir sem sitja hér inni hafa líka fengið upplýsingar um hversu gríðarleg þörf er fyrir fjölgun á hjúkrunarrýmum en um það bil 400 einstaklingar eru í brýnni þörf eftir hjúkrunarrýmum og enn stærri hópur er í þörf eftir slíku plássi. Ég tel einfaldlega að þetta snúist um forgangsröð, að þessi kynslóð fái það sem hún á skilið og við þurfum að mæta þessari þörf fyrir fleiri hjúkrunarrými sem blasir við okkur öllum. Að sama skapi þurfum við að sjálfsögðu að efla önnur úrræði, svo sem heimahjúkrun, dagvistun o.s.frv.

Ég ætla ekki að vera langorður um þetta mál í dag en mig langar þó að lesa aðeins upp úr Morgunblaðsgrein Ólafs Arnar Arnarsonar læknis sem birtist í Morgunblaðinu 22. nóvember síðastliðinn en Ólafur Örn var lengi vel einn af aðalhugmyndafræðingum Sjálfstæðisflokksins og hefur haft mótandi áhrif á stefnu þess flokks í heilbrigðismálum. Þar segir hann, með leyfi forseta:

„Á níunda áratug síðustu aldar var lagður flatur skattur á alla landsmenn sem ætlað var það hlutverk að nota til að byggja hjúkrunarheimili, enda öllum þá orðið ljóst að skortur á hjúkrunarplássum væri verulegur. Árið 1991 var lögunum um þennan skatt breytt að kröfu fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins og gefin heimild til að nota stóran hluta þessa skatts til reksturs hjúkrunardeildanna. Um þriðjungur upphæðarinnar fór í þetta og minnkuðu framlög til uppbyggingar eins og skattinum var upphaflega ætlað verulega. Á þeim árum sem síðan eru liðin er því ljóst að framlög til uppbyggingar hafa verið skorin niður um 2,5–3 milljarða króna. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er þess getið að hvert nýtt sjúkrarúm á hjúkrunardeild kosti um 12 milljónir króna. Fyrir þessa upphæð sem fjármálaráðherranum tókst að skera niður hefði því verið hægt að koma upp 200–250 rúmum á hjúkrunarheimilum sem svo sannarlega hefði breytt stöðu málsins í dag mjög mikið.“

Þetta er að sjálfsögðu alveg rétt hjá lækninum sem skrifar þessa grein. Það er alveg ljóst að með því að beina stórum hluta af fé Framkvæmdasjóðs aldraðra í rekstur fer sá hluti að sjálfsögðu ekki á sama tíma í uppbyggingu. Nú þegar blasir við að um það bil 70–100 manns sem eru á Landspítala – háskólasjúkrahúsi eiga þar ekki heima, þ.e. þetta eru einstaklingar sem gætu fengið þörfum sínum betur mætt hjá öðrum stofnunum, svo sem öldrunarstofnunum. En það þarf auðvitað ekki að segja þingheimi það að hvert rúm á Landspítalanum er talsvert dýrara en það rými sem má finna á hjúkrunarheimilum þannig að það er afskaplega dýr stefna að hafa svona marga inni á dýru hátæknisjúkrahúsi eins og Landspítalinn er.

Það er alveg ljóst að við þurfum öll að taka okkur á í þessu. Við þurfum helst að snúa þessari þróun við hvað varðar Framkvæmdasjóðinn en við þurfum að gera átak í að fjölga hjúkrunarrýmum um allt land. Það er víða þörf á hjúkrunarrýmum, ekki einungis í Reykjavík þó að hún sé að sjálfsögðu sláandi hér. Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að við höfum einnig mun hærra hlutfall aldraðra sem búa í fjölbýli en hin Norðurlöndin og það er einnig þróun sem við þurfum að snúa við.

Það er alveg ljóst að á meðan 400 manns eru í brýnni þörf eftir hjúkrunarrýmum þá þurfum við að gera átak í því að fjölga hjúkrunarrýmum hér á landi.