132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Stuðningur við framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum.

313. mál
[16:43]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Eins og fram kom í máli hv. formanns umhverfisnefndar rita ég undir nefndarálit umhverfisnefndar með fyrirvara. Ég mun gera grein fyrir þeim fyrirvara.

Í sjálfu sér eru meginmarkmið frumvarpsins þess eðlis að sjálfsagt er að styðja þau. Í fyrsta lagi að samkomulag á milli sveitarfélaga og ríkisins verði framlengt og séð til að ríkið komi að því að styrkja sveitarfélög til framkvæmda við fráveitur næstu þrjú ár.

Hitt meginmarkmið frumvarpsins er að heimilt verði að verja allt að 10 millj. kr. á hverju ári til gildistíma laganna til rannsókna á viðtökum.

Það er ljóst að þau þrjú ár sem heimildin er framlengd um nægja ekki til að sveitarfélög sem eiga eftir að ljúka fráveitumálum geti klárað það verk. Það kemur fram í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga við málið að bæði skorti meira fjármagn til málaflokksins, þannig að sveitarfélögin geti staðið undir þeim framkvæmdum sem í farvatninu eru, og sömuleiðis telur stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga að lengri tíma en þrjú ár þurfi til að klára framkvæmdirnar.

Ég hefði verið tilbúin að ganga lengra og sjá til þess að málið yrði klárað með þessari breytingu. En eins og segir í nefndaráliti umhverfisnefndar þá er mikilvægt að ljúka verkefninu og nefndin beinir því til hlutaðeigandi að gerð verði tímasett áætlun um lok framkvæmda. Auðvitað styð ég það en ég tel að þetta feli í sér að annað frumvarp eigi eftir að koma fyrir Alþingi eftir þrjú ár til að framlengja verkefnið um a.m.k. tvö ár. Ég tel að við hefðum getað stigið það skref samhliða.

En meginefni fyrirvara míns er að ég mótmælti því á síðasta þingi, þegar í gegn fór breyting á þessum lögum sem laut að því að sveitarfélögum væri heimilt að fara í fráveituframkvæmdir með einkaframkvæmd en samt yrðu þær styrkhæfar. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum varað við þessu einkaframkvæmdaræði og því að ríkisvaldið reki sveitarfélögin út í einkaframkvæmd. Við teljum einkaframkvæmdarformið hafa orðið sveitarfélögum mjög dýrt til þessa og sjáum ekkert í spilunum sem segir okkur að á því verði breyting.

Í þessu frumvarpi er hnykkt á því orðalagi sem varðar einkaframkvæmdina, sem sett var í lögin með breytingum á síðasta þingi. Þar er rætt um að styrkupphæðin vegna einkaframkvæmda geti aldrei verið hærri en sem nemur virðisaukaskatti vegna þeirra. Mér finnst álitamál hvort sveitarfélög eigi að fá þennan stuðning þegar um einkaframkvæmd er að ræða og hvort hann eigi að vera með því móti sem nú er búið að ákveða. Fyrirvari minn lýtur fyrst og fremst að þessu.

Það er ekki þar með sagt að við séum á móti málinu. Í upphafi máls míns nefndi ég að við styðjum meginatriði þess, þ.e. að sveitarfélögin séu styrkt til framkvæmda við fráveitur sínar og heimilt verði að verja allt að 10 millj. kr. af opinberu fé á gildistíma laganna til rannsókna á viðtökum.

Ég tel mig hafa gert grein, frú forseti, fyrir fyrirvara mínum við þetta mál.