132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Hollustuhættir og mengunarvarnir.

314. mál
[17:07]
Hlusta

Frsm. meiri hluta umhvn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, með síðari breytingum.

Með frumvarpinu er lagt til að umhverfisráðherra verði heimilt að kveða á um að innra eftirlit skuli sæta úttekt faggilts aðila, að hluta eða í heild. Mikilvægt er að kveða á um að innra eftirlit sæti slíkri úttekt þar sem öryggi fólks er í húfi, sérstaklega barna.

Samkvæmt upplýsingum Lýðheilsustöðvar verða flest frítímaslys á börnum í aldurshópnum 0–4 ára, þ.e. þegar börn eru með forráðamönnum, á skipulögðum leiksvæðum. Alvarlegir höfuðáverkar eru oft raktir til þess að undirlag er ekki samkvæmt staðli. Á leikskólum verða jafnmörg slys inni og úti á leiksvæði. Í grunnskólum verða langflest slys á börnum á skólalóðinni eða í íþróttasal.

Ég mun ekki fjalla um álitið í löngu máli en þó er rétt að taka það fram að málið snýst um eftirlit með leiksvæðum. Þetta er gamalt mál og niðurstaða úr vinnu nefndar sem fulltrúar frá umhverfisráðuneyti og Sambands íslenskra sveitarfélaga sátu í á árunum 2000–2002. Niðurstaða þeirrar nefndar kom fram í reglugerð sem tók gildi árið 2002. Hér er þeirri reglugerð í rauninni veitt lagastoð.

Ástæðan fyrir lögunum og reglugerðinni er einfaldlega sú að mjög alvarleg slys verða á börnum á leiksvæðum. Menn þekkja dæmi um slíkt og það hefur verið rakið til þess að staðlar hafi ekki verið uppfylltir á þeim svæðum. Börn detta meira á höfuðið en fullorðnir af þeirri einföldu ástæðu að höfuð þeirra eru hlutfallslega þyngri en hinna fullorðnu. Eins og ég nefndi áðan, og kemur fram í minnispunktum frá Lýðheilsustöð, eru dæmi um alvarleg slys á börnum á slíkum svæðum.

Sveitarfélögin eiga flest þessi svæði og bera skaðabótaábyrgð ef ástand þeirra er ekki í lagi. Það er mat þeirra sem nefndin fékk á sinn fund að gott væri fyrir sveitarfélögin að fá leiðbeiningar um þessa þætti. Það liggur fyrir að til að taka út leiksvæði af þessu tagi þarf sérfræðiþekkingu.

Þrátt fyrir að sá sem hér stendur telji miklu skipta að láta eftirlitsiðnaðinn ekki vaxa upp úr öllu valdi — ég vona sem flestir séu sammála því — og að nauðsynlegt sé að haga lagasetningu þannig að eftirliti verði sinnt með sem einföldustum og skilvirkustum hætti og án þess að auka kostnað atvinnulífsins eða sveitarfélaga þá breytir það ekki því að í þessu máli er engin ástæða til að veita neinn afslátt. Þegar kemur að börnum, börnum þessa þjóðfélags, er ekki nokkur ástæða til þess að vera með neinn afslátt. Þess vegna var það niðurstaða nefndarinnar frá árinu 2002 að þessi leið væri best til að koma í veg fyrir slys á börnum og reyna að fækka þeim. Þau slys koma niður á öllum en eðli máls samkvæmt verst niður á börnunum sjálfum. Það kemur sannarlega niður á heilbrigðiskerfinu og í þeim tilfellum sem ekki hefur verið staðið við staðla á viðkomandi leiksvæðum bera eigendur leiksvæða skaðabótaábyrgð. Þar fyrir utan situr eigandinn náttúrlega uppi með að svæðið hafi ekki uppfyllt skilyrði sem sett hafa verið og að af þeim orsökum hafi barn slasast mikið. Því miður eru mörg dæmi um að viðkomandi börn hafi ekki jafnað sig eftir slíkt. Ég ætla ekki annað en að í þessum sal sé skilningur á því að menn taki ekki áhættu í málum sem þessu. Það kemur kannski í ljós í umræðunum á eftir hvort svo er. Það verður athyglisvert að heyra önnur sjónarmið ef þau eru til staðar.

Meiri hlutinn skrifar undir þetta nefndarálit og leggur til að það verði samþykkt. Undir það skrifa ásamt mér hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, Ásta Möller, Kjartan Ólafsson og Sigurrós Þorgrímsdóttir.