132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Hollustuhættir og mengunarvarnir.

314. mál
[17:33]
Hlusta

Frsm. meiri hluta umhvn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir ágætar ræður um málið. Ég verð þó aðeins í örstuttu máli að leiðrétta nokkra hluti.

Um málið voru fáir fundir haldnir en ég bendi á að ég hélt sérstakan fund til að reyna að fara yfir þessi helstu gagnrýnisatriði sem komu fram frá minni hlutanum og beiðni þeirra um að fá fulltrúa frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Það var gert. Svo því sé til haga haldið var beðið um umsögn frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga en þeir sáu ekki ástæðu til að senda hana vegna þess að þeir voru búnir að samþykkja þessa reglugerð, enda tóku þeir þátt í undirbúningi hennar árið 2002. Það skiptir máli að þessu sé til haga haldið.

Einnig skiptir máli að frá því sé sagt að í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga segir í niðurlagi, sem kom í morgun eins og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir benti réttilega á, með leyfi forseta:

„Sambandið leggst ekki gegn því að frumvarpið verði samþykkt enda gerði það ekki athugasemd við setningu reglugerðar um öryggi leikvallatækja og leiksvæða og eftirlit með þeim þegar það fékk hana til umsagnar á árinu 2002.“

Hér er ekki um neina breytingu að ræða. Þess vegna sáu þeir ekki ástæðu til að senda umsögn en gerðu það þegar eftir því var sérstaklega leitað og það kemur skýrt fram að þeir leggjast ekki gegn frumvarpinu vegna þess að þeir voru samþykkir reglugerðinni árið 2002.

Aðeins vegna reikninga úr Reykjavík er rétt að taka fram að sveitarfélögunum er líka heimilt að fá faggildingu ef þannig má að orði komast, einstaklingar innan þeirra, starfsmenn þeirra geta fengið faggildingu. Þau geta því haft þetta innan sinna vébanda. Það skiptir máli að það komi fram.

Síðan geta menn auðvitað rætt um hvort þetta sé umfangsmikið eftirlit. Skylt er að hafa samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga um atriði er varðar skyldur sveitarfélaga samkvæmt lögum. Menn verða þá að ræða það ef þeir munu gefa einhvern afslátt af slíku eftirliti en ég held að menn komist að þeirri niðurstöðu þegar þeir hugsa þetta í rólegheitunum að ekki sé hægt að hafa mikið minna eftirlit en hér er gert ráð fyrir út af eðli máls. Ég mundi telja að það væri mjög gott að einkaaðilar mundu bíða í röðum eftir að fá faggildingu. Það þýðir fleiri valkosti fyrir þá aðila sem að þessu máli koma og þurfa að veita slíka þjónustu og alla jafna fögnum við því.

Ég held því að allir sem skoða málið komist að þeirri niðurstöðu að hér sé um gott mál að ræða og svo sannarlega las ég allar þær umsagnir sem bárust nefndinni og ég vona að nefndarmenn hafi gert það einnig. Ég vona að betri sátt verði um málið því eins og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir benti á er þetta mjög gott mál.