132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Hollustuhættir og mengunarvarnir.

314. mál
[17:41]
Hlusta

Frsm. minni hluta umhvn. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Nú verður hv. þingmaður að athuga það að sveitarfélögin hafa nú þegar öflugt öryggiseftirlit með öllum leiktækjum á opnum svæðum sem eru í umsjá þeirra. Hv. þingmaður má því ekki tala eins og það sé ekki neitt eftirlit í gangi í dag. Hins vegar erum við að tala um faggildingu þeirra aðila sem taka út það öryggiseftirlit sem er til staðar í dag. (Gripið fram í: Eftirlit með eftirlitinu.) Við erum því að tala um eftirlit með eftirlitinu. Við verðum að vera með það algerlega á hreinu.

Þess vegna verður þetta aukinn kostnaður fyrir sveitarfélögin að öðlast faggildingu fyrir starfsmenn sína sem þýðir, eins og það er í dag, að senda þarf starfsmenn til Englands á átta vikna námskeið til að læra öryggisstaðal Evrópusambandsins. Haldið þið að það sé ekki kostnaður fólginn í því, hv. þingmenn? Auðvitað. Samband íslenskra sveitarfélaga mótmælir því í þessari umsögn sem er send í dag að lagður sé svona mikill kostnaðarauki á sveitarfélögin. Auðvitað getur þeim ekki verið stætt á öðru. En einhverra hluta vegna kom sú umsögn seint, það er alveg rétt. Hún er ekki afdráttarlaus. Það eru mun afdráttarlausari umsagnir í bunkanum frá okkur, frá sveitarfélögunum og Félagi heilbrigðis- og umhverfisfulltrúa. Því segi ég að við erum með mál sem verið er að afgreiða í hasti í miklum ágreiningi sem væri svo mikill óþarfi að hafa nokkurn ágreining um ef hér væru sýnd sæmileg vinnubrögð.