132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Hollustuhættir og mengunarvarnir.

314. mál
[17:43]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst mjög sérkennilegt að horfa upp á borgarfulltrúa leggja fram frumvarp, alveg blákalt, sem ekki er kostnaðarmetið. Ég er alveg gáttaður á því og einnig þegar maður heyrir óminn frá Sjálfstæðisflokknum um að taka eigi á einhverjum eftirlitsiðnaði eins og það er kallað, þá koma menn og bæta ofan á, smyrja ofan á. Mér finnst það vera mjög undarlegt að svo mikið liggi á að bæta kostnaði á sveitarfélögin að ekki megi einu sinni skoða hvað það er mikið.

Það er eitt í þessu sem ég ætla að nefna, af því að borgarfulltrúinn er héðan úr þéttbýlinu, að þetta getur komið við minni sveitarfélögin. Til dæmis eru félagsheimili úti á landi með rólur. Ég veit ekki hvort menn eru tilbúnir að greiða kannski 17 þús. kr. reikning eða 40 þús. kr. reikning til að skoða viðkomandi rólur t.d. í Steingrímsfirði, Sævangi, félagsheimilinu þar. Eru menn kannski að taka rólurnar frá börnunum úti á landi?

Mér finnst skrýtið að mönnum liggi svo á að ekki megi kostnaðarmeta þetta og það af flokki sem segir að hann vilji ábyrgan rekstur. Hvaða ábyrgi rekstur er það að vilja ekki kostnaðarmeta svona frumvarp? Mér finnst þetta í rauninni vera stórundarlegt.