132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Hollustuhættir og mengunarvarnir.

314. mál
[17:45]
Hlusta

Frsm. meiri hluta umhvn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Örstutt vegna þessa, þá vísa ég aftur og les aftur fyrir hv. þingmann umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga. (Gripið fram í.) Hér segir, með leyfi forseta:

,,Sambandið leggst ekki gegn því að frumvarpið verði samþykkt enda gerði það ekki athugasemd við setningu reglugerðar um öryggi leikvallatækja og leiksvæða og eftirlit með þeim þegar það fékk hana til umsagnar á árinu 2002.“

Þá lagðist kostnaðurinn á þetta. Hv. þingmaður segir hins vegar: Hvað er þessi þingmaður sem hér stendur að hugsa að koma á eftirliti með þessu, því fylgir kostnaður. Já, því fylgir kostnaður og ég er ekki tilbúinn að veita afslátt af þessum hlutum. Mér er nákvæmlega sama hvar leiksvæðin eru og hvort þau eru notuð oft eða ekki. Ég tel enga ástæðu til þess að veita afslátt þegar öryggi barnanna okkar er annars vegar, enga, svo því sé algerlega til haga haldið.