132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Hollustuhættir og mengunarvarnir.

314. mál
[17:48]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég vil í tilefni af umræðunni taka fram að afstaða okkar samfylkingarmanna í þessu efni byggist mjög einfaldlega á því að málið er vanreifað. Þær forsendur sem þurfa að vera til að taka efnislega afstöðu í málinu voru ekki til staðar. Vissulega er það rétt að eftir að formaður umhverfisnefndar reyndi fyrst að koma málinu í gegn boðaði hann til annars fundar daginn eftir í samráði við minni hlutann, a.m.k. við mig, og það samstarf var með þeim hætti sem tíðkast hefur í umhverfisnefnd að undanförnu. Hins vegar voru þær umsagnir ekki komnar fram sem þurfti. Ein kom í dag eftir að málið var komið af dagskrá þingsins og önnur mjög mikilvæg umsögn frá Reykjavíkurborg kom ekki fyrr en í gær. Af þeim ástæðum getum við ekki tekið þátt í afgreiðslu málsins og stöndum með hinum stjórnarandstöðuflokkunum að því nefndaráliti sem hér um ræðir.