132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[17:53]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Vinstri hreyfingin – grænt framboð styður frumvarpið og lítur svo á að hér sé um mikilvægt framfaraspor að ræða. Hins vegar er frumvarpinu í ýmsu ábótavant og höfum við því lagt fram breytingartillögur. Það er t.d. ekki kveðið á um að lögin skuli taka til sjómanna og starfsmanna flugfélaga. Við bætum úr því. Við bætum einnig úr því að í frumvarpinu skortir beina tilvísun í lög sem eiga að tryggja að kjarasamningar í landinu gildi. Því er einnig ábótavant að í lögunum er ekki kveðið á um að trúnaðarmenn verkalýðsfélaga skuli eiga aðgang að ráðningarsamningum og upplýsingum um launakjör leigðra starfsmanna og það er ekki kveðið á um miskabætur.

Út á þetta ganga tillögur okkar og þær eru ekki nýjar af nálinni. Þær hafa legið fyrir Alþingi í hálft annað ár. Í hálft annað ár hafa legið fyrir þinginu tillögur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs þar sem tekið er á þessum málum öllum. En við fögnum því að stjórnarandstaðan á Alþingi og verkalýðshreyfingin skuli hafa fengið því ágengt að ríkisstjórnin loksins vaknaði í málinu. Það er til skammar hve illa hún hefur sofið á verðinum. En ég ítreka stuðning okkar við frumvarpið, við teljum það vera spor fram á við.