132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

327. mál
[18:31]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Það er mikið vandræðamál, þetta olíumál. Ég stóð með félögum mínum hér lengi að því, tókst í ein sex ár að forða því að þessi litun kæmist á. En svo gengur það nú þannig að enginn má við margnum, og þetta er búið að vera hér núna og tekið í lög.

Ég lýsti við 2. umr. um þetta frumvarp afstöðu minni sem er orðin átta eða níu ára gömul. (Gripið fram í: Við verðum nú að sýna lit annað slagið …) Ég tel hið mesta óráð að sýna þennan lit vegna þess að það er eins og skemmt epli þegar við búum til skattkerfi sem býður þegnunum upp á að gerast lögbrjótar. Þannig er þetta núna.

Mér er sagt, og ég hef sannreynt það, að í gær hafi hæstv. fjármálaráðherra kveðið sér hljóðs um þetta mál, gefið þær yfirlýsingar að hann ætlaði að standa fyrir því að málið yrði tekið upp í ráðuneyti hans. Ég hef rætt við hann ítarlega um málið. Ég stend í þeirri meiningu og þeirri trú að hæstv. ráðherra sé að verða ljóst þvílík vandræði þetta eru. Ég treysti því og trúi að hann muni skipa nefnd í þetta mál þar sem aðilar vinnumarkaðarins fái að koma að því og við mjög hratt og vel förum í gegnum það og afnemum þessa litun. Hún er skelfilegur hlutur.

Vegna þessa hef ég ákveðið, virðulegur forseti, að við þá atkvæðagreiðslu sem fer fram á eftir ætla ég að láta af því að vera á móti. Hins vegar mun ég gera minni ríkisstjórn það til heiðurs að sitja hjá.