132. löggjafarþing — 41. fundur,  9. des. 2005.

Hæstaréttardómur í máli jafnréttisstýru.

[18:49]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Frú forseti. Það er ástæða til að tala varlega í þessu máli enda er það viðkvæmt hvernig sem á er litið. Í umræðu um það má ekki víkja frá grunni þess og tilefni því að það snýst um gildi og trúverðugleika Jafnréttisstofu.

Hæstv. félagsmálaráðherra hefur sýnt í verkum sínum að hann leggur þunga áherslu á jafnréttismál. Ég hygg að flestir geti verið sammála um að jafnréttismál eru ofarlega á forgangslista hæstv. ráðherra. Í því tilviki sem hér er gert að umræðuefni var það að forstöðukona Jafnréttisstofu var talin hafa farið á svig við jafnréttislög, þótt reyndar væri á öðrum vettvangi. (Gripið fram í.) Þar með var komin upp nokkuð óvenjuleg staða og laut auðvitað að trúverðugleika Jafnréttisstofu sem stofnunar og jafnréttismála almennt. Ráðherra varð að bregðast við með einhverjum hætti. Það hefur komið fram, frú forseti, að hæstv. ráðherra hafði fullt samráð og fór að ráðleggingum ríkislögmanns. Málið er vitanlega flókið eins og sést e.t.v. best á því að héraðsdómur staðfesti sök þá sem ríkislögmaður bar fram, eins og ráðherra hafði kynnt, en Hæstiréttur sneri síðan þeim dómi við. Það segir okkur auðvitað að málið er langt frá því að vera einfalt.

Tilefnið er þó vitanlega trúverðugleiki Jafnréttisstofu en alls ekki persónulegur fjandskapur af hálfu hæstv. ráðherra. Ég hygg að hv. þingmenn geti einmitt verið sammála um það að hæstv. félagsmálaráðherra hafi sýnt í verkum sínum að hann setur jafnréttismál ofarlega á verkefnalista sinn. Sá er vitanlega kjarni málsins. Starfsmaðurinn fær bætur og það er ástæða til að óska Valgerði Bjarnadóttur alls hins besta og jafnframt að vona að jafnréttismál haldi áfram að þróast eins og þau hafa gert undir ágætri forustu hæstv. félagsmálaráðherra.