132. löggjafarþing — 41. fundur,  9. des. 2005.

Hæstaréttardómur í máli jafnréttisstýru.

[18:51]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Frú forseti. Niðurstaða Hæstaréttar í máli fyrrverandi framkvæmdastýru Jafnréttisstofu staðfestir að hæstv. félagsmálaráðherra misbeitti valdi sínu með því að flæma framkvæmdastýruna úr starfi með yfirgangi og ólögmætum hætti. Ráðherrann braut m.a. þær meðalhófsreglur sem gilda eiga í stjórnsýslunni. Þessi embættisfærsla ráðherrans er alvarleg afglöp í starfi og mundi víða varða við lög um ráðherraábyrgð.

Það hvarflar örugglega ekki að félagsmálaráðherra að viðurkenna að hann hafi framið embættisafglöp en ég vona að hæstv. ráðherra iðrist þó gjörða sinna og biðji Valgerði Bjarnadóttur afsökunar. Hann yrði maður að meiri með því að gera það og skora ég á hæstv. ráðherra að biðja fyrrverandi framkvæmdastýru Jafnréttisstofu afsökunar.