132. löggjafarþing — 41. fundur,  9. des. 2005.

Hæstaréttardómur í máli jafnréttisstýru.

[18:57]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það var reisn yfir því hvernig Páll Pétursson, fyrrverandi hæstv. félagsmálaráðherra, brást við þegar mál Valgerðar H. Bjarnadóttur kom upp. Hann lýsti yfir fullu trausti á hana og hvatti hana til að halda störfum sínum áfram. Það er lítil reisn yfir því hvernig arftaki hans, Árni Magnússon, hefur brugðist við í þessu máli öllu, og ömurlegri málsvörn en hér var uppi höfð áðan hef ég nú sjaldan heyrt, að reyna að taka til samanburðar fullkomlega ósambærilegt og 15 ára gamalt mál þar sem ríkið var einmitt sýknað af öllum kröfum um miskabætur. Ríkið varð að vísu, það er rétt, að greiða tiltekna launakröfu vegna þess að ekki hafði verið staðið rétt að skipulagsbreytingum í einni af undirstofnunum samgönguráðuneytisins (Gripið fram í: Hver sagði af sér?) og ekki hafði verið staðið rétt að því að leggja þar niður stöðu. Að öllu leyti öðru eru þessi mál ósambærileg og það sýnir hversu hroðalega vondur málstaður hæstv. ráðherra og Framsóknarflokksins er að það er engin málsvörn til nema þessi, að reyna að segja — og hafa þar rangt fyrir sér — að aðrir kunni að hafa brotið af sér einhvern tíma löngu áður. Ja, þvílík málsvörn.

Hæstv. ráðherra hefur aldrei tjáð sig um þetta mál nema af hroka. Ég hef tekið það tvisvar sinnum áður hér upp og viðbrögð ráðherrans hafa ævinlega verið sami hrokinn. Hæstv. ráðherra hefur aldrei sýnt nein merki iðrunar. Hæstv. ráðherra hefur aldrei komið fram við Valgerði H. Bjarnadóttur eins og maður. Hann er of lítill til þess. (Gripið fram í: Hún vildi hætta.) Lögmaður Valgerðar bauð ráðherra margsinnis samningaleið út úr þessu máli. Nú sjá menn hversu gáfulegt það var að ganga fram í krafti hrokans.

Ef hæstv. ráðherra ætlar að þruma þetta af sér og vinna jafnréttismálum m.a. það ógagn að sitja rýrður trausti sem ráðherra þess málaflokks, ja, þá verða það kjósendur sem setja hann af og Framsóknarflokkinn allan. (Forseti hringir.) Hefur farið fé betra.

(Forseti (SP): Að gefnu tilefni biður forseti hv. þingmenn um að gæta orða sinna.)