132. löggjafarþing — 44. fundur,  17. jan. 2006.

Norðlingaölduveita.

[13:43]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Alþingi hefur markað stefnu í þessu máli. Unnið hefur verið að því að gera vandaða löggjöf á Alþingi um hvernig staðið skuli að framkvæmdum í landinu. Ég tel að sú löggjöf sé mjög til fyrirmyndar og mikil samstaða hefur verið um það á Alþingi.

Að því er varðar þessa tilteknu framkvæmd er hún til meðferðar samkvæmt því ferli og því ferli er alls ekki lokið. Hún er m.a. til meðhöndlunar hjá samvinnunefnd um skipulag miðhálendisins og hún er líka til meðhöndlunar hjá fyrirtækinu Landsvirkjun þar sem m.a. fulltrúar úr flokki hv. þingmanns sem hér tók til máls eiga sæti. Ég tel nauðsynlegt að við höldum þessu máli í því ferli.

Hitt er svo annað mál að mér er kunnugt um að þarna standa engar framkvæmdir fyrir dyrum af eðlilegum ástæðum vegna þess að ekki er komin niðurstaða. Það er því ekkert um að vera á þessu svæði sem kallar á aðgerðir núna. Ég vil biðja hv. þingmann að virða það að við vinnum samkvæmt þeim lögum sem við höfum sjálf sett.

Ég geri mér vel grein fyrir því að þetta er viðkvæmt mál og ber að umgangast það með þeim hætti. En við verðum líka að hafa það í huga að ýmsar aðrar framkvæmdir eru til meðhöndlunar í landinu sem eru jafnframt viðkvæmar. Ég vænti þess að t.d. þeir sem eru á Alþingi og sitja í stjórn Landsvirkjunar geri sér grein fyrir slíku og við getum sameinast um að þetta mál haldi áfram í þeim farvegi, en ég sé ekki fram á að framkvæmdir séu eitthvað að hefjast þarna á næstunni. Ég sé því ekki ástæðuna fyrir því að Alþingi grípi inn í þetta mál á þessu stigi.