132. löggjafarþing — 44. fundur,  17. jan. 2006.

Norðlingaölduveita.

[13:43]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ástæðan fyrir því að hv. Alþingi ætti að grípa inn í þetta mál á þessu stigi er sú að stórt fyrirtæki í eigu þjóðarinnar, Landsvirkjun, er með eitt sveitarfélag í landinu í gíslingu vegna þessa máls og hefur beinlínis lagt þetta sveitarfélag í einelti. Sveitarfélagið, Skeiða- og Gnúpverjahreppur, hreppsnefnd þess hefur ákveðið að hafna Norðlingaölduveitu. Það verða ekki veitt nein framkvæmdaleyfi til Landsvirkjunar vegna Norðlingaölduveitu ef Landsvirkjun kemur til með að endurnýja óskir um það. Þannig standa málin í dag.

Málið er ekki í meðhöndlun hjá miðhálendisnefndinni eins og hæstv. forsætisráðherra sagði. Það er allt á núllpunkti vegna þess að það er ekkert skipulag í gildi á þessu svæði og miðhálendisnefndin hefur ekki fengið neinar óskir um að taka það skipulag upp. Núna hefur stór hluti miðhálendisins ákveðið samþykkt skipulag en þetta litla svæði sunnan Hofsjökuls ekki. Nú er lag. Vindarnir eru að snúast. Hæstv. forsætisráðherra og hæstv. ríkisstjórn ætti auðvitað að leyfa sér að snúast með vindinum eins og hv. þingmenn Samfylkingarinnar hafa ákveðið að gera og við fögnum því. Við skulum því sjá núna til þess hvort fólk geti ekki bara farið með þessum vindi, fylkt sér að bak við tvo þriðju hluta þjóðarinnar sem hafa gefið út í skoðanakönnunum vilja sinn, vilja til að þyrma Þjórsárverum um langa framtíð og vernda þau. Og ekki nóg með það, heldur á Alþingi núna líka að samþykkja að við tilnefnum þetta votlendissvæði sem er mikilvægt á heimsvísu inn á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna. Það væri verulegur sómi að því. Þar með mundi Alþingi Íslendinga viðurkenna verndargildi svæðisins. Verndargildi þessa svæðis er miklu meira en nokkurt nýtingargildi vegna raforkuframleiðslu fyrir stór erlend álfyrirtæki.