132. löggjafarþing — 44. fundur,  17. jan. 2006.

Norðlingaölduveita.

[13:48]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Er unnið mjög markvisst að náttúruverndarmálum? Já, er það? Mér finnast ummæli þeirra tveggja hæstv. ráðherra sem hafa talað fyrir hönd ríkisstjórnarinnar lýsa loðinni og tvístígandi afstöðu í þessum málum. Afstaða Frjálslynda flokksins er á hreinu í þessu máli. Borgarfulltrúi okkar, Ólafur F. Magnússon, hefur haft frumkvæði að því í borgarstjórn Reykjavíkur að leggja fram tillögu um að Reykjavíkurborg leggist gegn frekari virkjunarframkvæmdum í Þjórsárverum, þar á meðal Norðlingaölduveitu, í krafti eignarhluta síns í Landsvirkjun. Í þessum töluðu orðum er verið að leggja þá tillögu fram í borgarstjórn. Reykjavíkurlistinn hefur þegar lýst yfir að hann muni styðja málið og þessi tillaga hefur hlotið mjög góðar móttökur. Þingflokkur Frjálslynda flokksins lýsti í gær stuðningi við þessar tillögur, bæði tillögurnar í borgarstjórn og líka tillögu á Alþingi um verndun Þjórsárvera. Við hvetjum til þess að þverpólitísk samstaða náist um þetta þýðingarmikla mál. Þetta mál á mjög sterkan hljómgrunn meðal þjóðarinnar og ríkisstjórnin ætti að hlusta á þær raddir.

Við hljótum að fagna því frumkvæði sem F-listinn hefur sýnt í borgarstjórn. Við hljótum einnig að nota tækifærið hér og nú til að hvetja borgarstjórn til að samþykkja tillögu Ólafs F. Magnússonar um að vernda Þjórsárver.