132. löggjafarþing — 44. fundur,  17. jan. 2006.

Norðlingaölduveita.

[13:56]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Hæstv. forsætisráðherra og umhverfisráðherra hafa drepið þessu máli á dreif með því að segja að það sé í einhverju ferli og að setja eigi málið á ís. En hver er staða málsins? Staða málsins er sú að hæstv. forsætisráðherra hefur gefið leyfi fyrir því að fara í umrædda framkvæmd. Hann gaf hana út 9. september 2004. Ætlar hann að breyta því?

Það kemur fram í bréfi umhverfisráðherra til Skipulagsnefndar að leyfi hafi verið gefið út. Er það málið? Er hann einungis að tefja málið vegna þess að það er óvinsælt mál? Er verið að tefja málið fram yfir sveitarstjórnarkosningar með þokukenndu tali? Er þess beðið að kosningar líði hjá og síðan verði hægt að hrinda málinu í framkvæmd? Mér finnst að framsóknarmenn ættu að tala skýrt í þessu máli. Hvað vilja þeir? Sama gildir um sjálfstæðismenn, hvert eru þeir að fara? Hvað meina menn með því að málið sé í einhverju ferli? Staðan er einfaldlega sú að þetta leyfi hefur verið út og það virðist í gildi.

En í framhaldi af þessu er rétt að fara yfir annað. Allar þessar framkvæmdir, hverju hafa þær skilað venjulegu fólki í landinu? Við höfum farið yfir það. Þær hafa hækkað rafmagnsreikningana hjá fólkinu í landinu, breytingar sem Framsóknarflokkurinn hefur staðið fyrir, um tugi prósenta. Það hefur farið svo hátt að þurft hefur að sækja í skattfé almennings til að greiða niður þær hækkanir sem Framsóknarflokkurinn hefur staðið fyrir. Ekki nóg með það heldur virðist málið þannig vaxið að stórnotendur líði einnig fyrir hækkanirnar. Á forsíðu eins dagblaðsins kom fram að raforkuverð til iðnaðar hafi hækkað um allt að 50%. Ég tel að framsóknarmenn ættu nú að líta í eigin barm og staldra við áður en þeir æða áfram út í vitleysuna.