132. löggjafarþing — 44. fundur,  17. jan. 2006.

Norðlingaölduveita.

[14:01]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil bæði lýsa yfir vonbrigðum með svör sem komu fram hjá hæstv. forsætisráðherra í þessari umræðu en jafnframt fagna yfirlýsingu sem ég tel að hafi komið fram frá umhverfisráðherra í umræðunni um að stækka beri friðlandið í Þjórsárverum. Við munum að sjálfsögðu flytja um það tillögu hér, stjórnarandstaðan, að þetta nái fram að ganga og væntum góðs stuðnings frá umhverfisráðherra og formanni umhverfisnefndar í því máli en hann talaði líka í þá veru.

Við teljum hins vegar enga ástæðu til annars en að fella Norðlingaölduveitu út úr lögunum um raforkuver vegna þess að Alþingi á einfaldlega að hafa skoðun á þessu og Alþingi á einfaldlega að lýsa þeirri skoðun sinni að það samrýmist ekki þeim náttúruverndarsjónarmiðum sem við viljum standa fyrir að þessi veita fari í framkvæmd. Það er engin ástæða til að láta Landsvirkjun vinna áfram með þetta mál eða láta nefndina um skipulag miðhálendisins fá þetta mál áfram til meðferðar þegar ljóst er að það er meirihlutavilji fyrir því á Alþingi að þetta verði ekki að veruleika. Við eigum að taka af öll tvímæli um það en láta ekki kerfið malla áfram með málið þegar engin alvara er á bak við það og meiri hluti þingsins, lýðræðislega kjörnir þingmenn vilja ekki að þetta verði að veruleika.

Forsætisráðherra á ekki að standa hér einn eftir í þessu máli og berja höfðinu við steininn. Hann á að fylgja okkur hinum hér sem erum komin á þessa skoðun. Hann á að taka af skarið í málinu og taka af öll tvímæli svo að málið haldi ekki áfram að þæfast einhvers staðar í kerfinu. Það er ástæða til að grípa inn í, það er ástæða til að stöðva þetta ferli og það er enn hægt að gera það. Ég skora á forsætisráðherra og þá þingmenn eða ráðherra aðra sem enn eru við þetta heygarðshorn að láta nú af þessari tregðu og koma með okkur hinum í þetta mál.