132. löggjafarþing — 44. fundur,  17. jan. 2006.

Kjaradómur og kjaranefnd.

417. mál
[14:31]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ákveð auðvitað sjálf hvernig ég haga málflutningi mínum í ræðustóli þingsins. Og ég ákveð auðvitað sjálf hvort ég kýs að nota þetta tækifæri til að gegnumlýsa þann tvískinnung sem einkennir stjórnarstefnuna og þá gliðnun sem stjórnarstefnan hefur valdið í landinu. Þetta mál mun að sjálfsögðu fara til þingnefndar. Ég geri ráð fyrir að það fari til efnahags- og viðskiptanefndar þar sem ég á sæti og mun fjalla um málið og mun að sjálfsögðu kalla eftir þeim upplýsingum sem við þurfum til að taka afstöðu til málsins. Það kann vel að vera að niðurstaða mín verði sú að betra sé að fara aðrar leiðir að þessu máli en hér er lagt til. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að við þingmenn eigum ekki að taka þá launahækkun sem þarna er um að ræða. Það er afstaða mín. Við eigum að afsala okkur henni með lögformlega réttum leiðum. Spurningin snýst um hvaða leiðir eru bestar í því efni.