132. löggjafarþing — 44. fundur,  17. jan. 2006.

Kjaradómur og kjaranefnd.

417. mál
[14:34]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og kom fram í svari mínu áðan er afstaða mín í málinu algerlega skýr, þ.e. þingmenn eiga ekki að fá til sín þá hækkun sem þessi úrskurður gerði ráð fyrir. Spurningin er hins vegar hvaða aðferð er hægt að nýta í því efni og þar er ekki allt leyfilegt. Það er ekki leyfilegt t.d. að sveigja og beygja stjórnarskrá ef um það er að ræða. Það er ekki leyfilegt að taka jafnræðisreglu stjórnsýslulaga og gera ekkert með hana þó svo að við viljum ná fram einhverju tilteknu máli. Þetta verðum við að skoða í tengslum við þetta mál og þetta munum við skoða í efnahags- og viðskiptanefnd.

Sýna trúverðugleika, sagði þingmaðurinn Einar Oddur Kristjánsson. Gott. Sýna trúverðugleika. Ég veit vel að þingmaðurinn hefur staðið hér oft og talað um launamál. Hann hefur oft talað um að menn fari hér offari í ýmsum efnum. En hvar hefur varaformaður fjárlaganefndar verið þegar þessir hlutir hafa verið gerast í stofnunum ríkisins og í ráðuneytum ríkisins? Hann er ekki bara þingmaður að vestan, hann er varaformaður fjárlaganefndar. Hvað heldur þingmaðurinn að endurspeglist t.d. í fjáraukalögunum á hverju ári, í allri þessari miklu framúrkeyrslu í fjáraukalögunum? Hvað heldur þingmaðurinn að þar sé á ferðinni annað en það að menn halda sig ekki við þær forsendur sem gefnar voru í upphafi, m.a. í launamálum? Það hefði varaformaður fjárlaganefndar náttúrlega átt að skoða sérstaklega en standa ekki og æpa að borgarstjóranum í Reykjavík sem gerir kjarasamning fyrir algerlega opnum tjöldum og þar sem hlutirnir fara ekki fram úr áætlunum með þeim hætti sem gerist hjá ríkinu.