132. löggjafarþing — 44. fundur,  17. jan. 2006.

Kjaradómur og kjaranefnd.

417. mál
[15:02]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Launakjör alþingismanna, hver svo sem þau eru eða hvort sem þau taka til launanna sjálfra eða annarra réttinda, hafa jafnan vakið mikla umræðu í þjóðfélaginu og er í raun ekkert við það að athuga og eðlilegt að við sem störfum á hv. Alþingi þurfum að fjalla um þau mál sem að okkur sjálfum snúa varðandi laun og launakjör.

Hins vegar verð ég að segja, hæstv. forseti, að ég er ekkert viss um að við finnum betra fyrirkomulag til að ákveða laun alþingismanna heldur en að hafa einhvers konar úrskurðarnefnd um hver þau eigi að vera á hverjum tíma og við hvað þau eigi að miðast. Þetta segi ég þó ég hafi sjálfur tekið þátt í því um 25–30 ára skeið að semja um mín eigin kjör, þ.e. fyrir mína starfsstétt og þar með auðvitað talið sjálfan mig, og mun ég ekkert kveinka mér undan því að fjalla um launakjör okkar alþingismanna ef svo skipast mál að tekið yrði upp það fyrirkomulag að það þyrftum við að gera, enda held ég að ekki sé ástæða til að vera í neinum feluleik með umræðu um kjaramál alþingismanna frekar en annarra stétta.

Það skyldi þó ekki vera, hæstv. forseti, að málið sem við ræðum núna sem byggist á úrskurði Kjaradóms frá 19. desember síðastliðnum um hækkun á launum alþingismanna eigi einmitt rótina að rekja til þess að sum þeirra kjara sem dómurinn miðar við voru mönnum ekkert endilega sýnileg. Fólk sem er á hinum almennu töxtum í þjóðfélaginu og starfar á þeim kjörum sem samið er um almennt á vinnumarkaði gerði sér alla vega ekki grein fyrir því að þær viðmiðanir væru finnanlegar sem hægt væri að byggja rök á um að hækka laun alþingismanna yfir 8% nú um áramótin. Ég sem hér stend gerði mér að minnsta kosti ekki grein fyrir því að með rökum byggðum á samanburðarfræðum væri hægt að finna því stað að þeir sem eru að jafnaði best launaðir í þjóðfélaginu — þá er ég ekki að tala um þá sem eru starfandi í stórfyrirtækjunum og eru sjálftökumenn að sínum launum í raun, eiga þar ráðandi hluti og geta ráðið stefnunni sjálfir, heldur er ég að tala um þá sem starfa á vegum ríkisins, sveitarfélaga og um okkur alþingismenn — ég hygg að menn hafi ekki beinlínis talið að efni væru til þeirra hækkana sem Kjaradómur kemst að. Þegar maður hefur skoðað málið, umræður um það, blaðaskrif og greinargerðir, lögin um Kjaradóm og kjaranefnd og þá niðurstöðu sem við erum hér að ræða þá vekur það mann strax til umhugsunar, alla vega þann sem hér stendur sem hefur, eins og ég sagði áður, um margra áratuga skeið tekið þátt í því að semja um kjör við ákveðnar stéttir og löngum gert sér ljóst að það væri auðvitað samanburður á launum í þessu þjóðfélagi. Því dreg ég í efa, hæstv. forseti, að fyrirkomulagið sem er í lögunum núna um Kjaranefnd og kjaradóm sé heppilegt. Það geri ég vegna þess að mér sýnist innbyggt í lögin eins og þau eru að Kjaradómur muni ávallt taka mið af aðgerðum kjaranefndar og ef kjaranefnd kemst að þeirri niðurstöðu að tilefni sé til hækkana vegna þess að orðið hafi launaskrið eða að ákveðnir samningar hafi verið gerðir sem gefi tilefni til þeirrar viðmiðunar sem Kjaradómur kemst að þá verður ævinlega um að ræða víxlhækkanir þar sem Kjaradómur eltir kjaranefnd og kjaranefnd eltir síðan þær launaviðmiðanir sem hún getur fundið í breytingum varðandi laun viðmiðunarstétta.

Hvað leiddi þá til þess að kjaranefnd komst að þeirri niðurstöðu að hækka þyrfti laun ákveðinna hópa sem Kjaradómur hefur svo hengt sig á sem viðmiðun? Jú, hæstv. forseti, það er sennilega það að í kjarasamningum opinberra starfsmanna eru heimildir til þess að gera sérstaka stofnanasamninga, hækka þar laun innan stofnunar. Síðan held ég að það sé einnig tilflutningur á milli launaflokka ákveðinna stétta.

Hverjir samþykkja þá þennan grunn sem kjaranefnd og síðar Kjaradómur hengir sig á? Það er fjármálaráðuneytið, hæstv. forseti, það er fjármálaráðuneytið sem samþykkir að þessir samningar séu svo úr garði gerðir að launaskrið og launahækkanir geta átt sér stað á samningsbundnum tíma sem menn sjá ekkert endilega fyrir. Það er alla vega niðurstaða mín eftir að hafa farið í gegnum þau rök sem lögð voru fram varðandi röksemdir kjaradómsmanna að á þessa fyrstu hreyfingu í launakerfi opinberra starfsmanna hafi menn hengt sig og fylgt. Í bréfi frá formanni Kjaradóms, Garðari Garðarssyni, þ.e. svari til forsætisráðherra um Kjaradóm þar sem hann taldi hafa átt tvo kosti og báða vonda, segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Má þar einkum benda á að þann 26. apríl 2005 staðfesti fjármálaráðherra samkomulag við 24 stéttarfélög innan BHM um kjarasamninga félaganna, sem undirritað var þann 28. febrúar og síðan samþykkt í einstökum félögum í mars og apríl. Í samkomulaginu felst kerfisbreyting, þannig að 1. maí 2006 verður tekin upp ný launatafla sem er sameiginleg fyrir þau félög sem eru aðilar að því. Launatöflur þessara félaga hækkuðu mismikið, en meðalhækkun var á bilinu 5–5,5% Í framhaldi af þessum kjarasamningum ákvað kjaranefnd þann 28. júní sl. að hækka laun þeirra embættismanna sem undir hana heyra um 4,5%, afturvirkt frá 1. febrúar 2005.“

Þetta hygg ég, hæstv. forseti, að sé ein af ástæðum þess að Kjaradómur komst að þessari niðurstöðu. Þess vegna held ég að rétt sé að draga þá ályktun og velta því upp nú við 1. umr. um þetta mál sem reyndar hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir vék að áðan úr þessum ræðustóli, þ.e. að það kynni að vera galli á þeirri löggjöf um Kjaradóm og kjaranefnd sem sett var 1992 að vera með þetta fyrirkomulag, fyrst kjaranefndina og síðan Kjaradóm því það gerði það að verkum að þarna yrði samanburður og hver hækkaði annan.

Í 3. gr. laga um Kjaradóm segir, með leyfi forseta:

„Kjaradómur aflar sér af sjálfsdáðum nauðsynlegra gagna og upplýsinga og er honum rétt að krefjast skýrslna, munnlegra og skriflegra, af einstökum mönnum og embættismönnum.“

Síðan segir í 4. gr., með leyfi forseta:

„Kjaradómur getur kvatt sérfróða menn til starfa í þágu dómsins og til ráðuneytis um úrlausn mála.“

Í 5. gr. segir, með leyfi forseta:

„Við úrlausn mála skal Kjaradómur gæta innbyrðis samræmis í starfskjörum þeim sem hann ákveður og að þau séu á hverjum tíma í samræmi við laun í þjóðfélaginu hjá þeim sem sambærilegir geta talist með tilliti til starfa og ábyrgðar. Enn fremur skal Kjaradómur taka tillit til þróunar kjaramála á vinnumarkaði.“

Ég verð að segja, hæstv. forseti, að mér finnst að Kjaradómur hafi ekki tekið mikið tillit til þess hvernig ástandið var á almennum vinnumarkaði við þessa niðurstöðu sína og reyndar segir í bréfi formanns Kjaradóms, með leyfi forseta, um þessa viðmiðun:

„Nauðsynlegt er að finna aðferð til að ákvarða laun forseta, alþingismanna, ráðherra og æðstu embættismanna sem sæmileg sátt getur verið um. Það þarf líka að huga að því að ríkið er á samkeppnismarkaði um hæfasta starfsfólkið.“

Hæstv. forseti. Vel kann að vera að það sé samkeppni hjá ríkinu um fólk og menn þurfi að gæta þar að kjörum. Við sem störfum á hv. Alþingi þurfum hins vegar ávallt að huga að því að við alþingismenn getum aldrei verið leiðandi í launastefnu í þessu þjóðfélagi og ég held að það sé alveg sama hvort við tökum við niðurstöðum frá Kjaradómi eða hvort við ákveðum launin sjálfir í hv. Alþingi fyrir okkur alþingismenn, við getum aldrei gengið á undan í því og sagt: „Við skulum fá hærri prósentuhækkanir en almennt gerist í okkar þjóðfélagi.“ Við hljótum eðli málsins samkvæmt ævinlega að taka við niðurstöðu sem kemur á eftir því sem búið er að semja um í þjóðfélaginu og það var auðvitað ætlunin á sínum tíma með því að setja lög um Kjaradóm og kjaranefnd.

Viðbrögð þjóðfélagsins við þessari niðurstöðu voru auðvitað hörð og eðlilegt að þau yrðu þannig eins og staðan er. Ég vil orða það svo, hæstv. forseti, að gjá sé að myndast milli þeirra sem hafa lægri launin og hinna sem hærri launin hafa í þjóðfélaginu. Ég tala ekki um þá sem starfa í fyrirtækjunum og eru þar í toppstöðum, stjórnunarstöðum. Þar er keyrt gjörsamlega á skjön við það sem þekkst hefur á Íslandi fram að þessu. Það er ekki undarlegt, í ljósi stefnu ríkisstjórnarinnar, að launþegasamtök hafi brugðist hart við þeirri ákvörðun Kjaradóms að hækka laun alþingismanna og annarra yfir 8%. Launþegar áttu jú að fá 2,5% hækkun í byrjun janúar.

Stjórnarandstaðan taldi að ákvörðun Kjaradóms ætti ekki að ganga fram. Við buðumst strax til þess þegar málið kom upp á borðið að þingið yrði kallað saman milli jóla og nýárs til að fjalla um það. Við buðumst jafnframt til að taka eingöngu þetta mál fyrir, fjalla um það tiltölulega fáar klukkustundir og afnema þessa hækkun. Ég er enn á þeirri skoðun, hæstv. forseti, að betra hefði verið að afnema þessa hækkun en að fara þá leið sem ríkisstjórnin leggur til, að taka hluta af hækkuninni inn í ákvörðun fyrir framtíðina eins og frumvarpið er úr garði gert. Ég tel að betra hefði verið að fara í forsendur laganna um Kjaradóm og kjaranefnd og skoða þann samanburð allan án þess að laun okkar hækkuðu. Það hefði verið ákvörðun nýs Kjaradóms, á grundvelli lagabreytinga sem við náum væntanlega saman um, að ákveða hvaða breytingar hefðu átt að verða á launum okkar á nýjan leik.

Mér fannst undarlegt að forustumaður ríkisstjórnarinnar, hæstv. forsætisráðherra, skyldi ekki taka tilboði stjórnarandstöðunnar um að kalla saman stutt þing milli jóla og nýárs og klára þetta mál. Frá þeim tíma hefðum við getað tekið fyrir drög að breytingum á frumvarpi um Kjaradóm og kjaranefnd, sem mér sýnist óhjákvæmilegt að taka til gagngerrar umræðu, að fara yfir hvernig með skuli fara í framtíðinni og hvaða forsendur megi þar leggja til grundvallar.

Ég held að alþingismenn geti aldrei gengið á undan með að hífa upp laun í þjóðfélaginu þannig að aðrar stéttir, jafnvel með lakari laun en við alþingismenn, þurfi að miða sig við að við höfum farið af stað með eitthvert sérstakt launaskrið eða launastefnu. Við hljótum að þurfa að taka mið að því sem samið er um á almennum vinnumarkaði og leggja sérstaklega út af því. Í bréfi formanns Kjaradóms segir um það atriði, með leyfi forseta:

„Leiðsögn Kjaradóms um það atriði er þó heldur veikburða í lögunum en þar segir „Enn fremur skal Kjaradómur taka tillit til þróunar kjaramála á vinnumarkaði.““

Þetta finnst formanni Kjaradóms veikburða tilsögn. En ég hef alltaf skilið orðið „skal“ sem fyrirskipun. Þar segir „Enn fremur skal Kjaradómur ...“ og þá beri að taka það yfir. Það var a.m.k. niðurstaða Kjaradóms í janúar 2004 að láta ekki verða af 3% hækkun til alþingismanna vegna umræðu sem áður hafði farið fram um launakjör alþingismanna og sérstaklega lífeyrisréttindi þeirra, þ.e. í desember árið á undan. Ég held að það hafi verið mikil mistök af Kjaradómi að fella þær launabætur inn í þessa hækkun. Ég tel að það sé óábyrgt miðað við stöðuna.

En hvers vegna er ástandið svo viðkvæmt að slíkar breytingar megi ekki taka til baka eða gera leiðréttingar? Það er auðvitað vegna þess, hæstv. forseti, að ríkisstjórnin hefur keyrt fram stefnu í málum launafólks sem veldur geysimiklum deilum og ósætti. Það er ekkert launungarmál að skattstefna ríkisstjórnarinnar hefur fært þeim hæst launuðu verulegar kjarabætur. Langt umfram það sem láglaunafólki hefur boðist. Skerðingarákvæði sem bitna á öryrkjum og eldri borgurum, þar sem tekjur þeirra úr lífeyrissjóði eða atvinnutekjur skerða bætur þeirra frá Tryggingastofnun með svokallaðri 45% reglu, eru auðvitað gjörsamlega óþolandi. Launakjör hinna lægst launuðu eru óviðunandi. Þar til viðbótar hefur skattstefna ríkisstjórnarinnar fjölgað þeim sem greiða skatt af tekjum undir 100 þús. kr. á mánuði.

Hæstv. forseti. Er nema von að íslensk alþýða mótmæli þessari stefnu? Hún fékk tilefni til að mótmæla þegar alþingismenn og æðstu embættismenn áttu að fá meiri hækkun. Þá sprakk blaðran og það voru eðlileg viðbrögð hjá íslenskri alþýðu.