132. löggjafarþing — 44. fundur,  17. jan. 2006.

Kjaradómur og kjaranefnd.

417. mál
[16:45]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Sú umræða sem hér fer fram sprettur af þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar að leggja fram frumvarp um breytingu á lögum um Kjaradóm og kjaranefnd. Segja má að niðurstaða Kjaradóms þann 19. desember hafi valdið nokkrum úlfaþyt í samfélaginu og ríkisstjórnin og kannski fleiri hafi bókstaflega farið á taugum þegar sú niðurstaða lá fyrir.

Það er kannski rétt að menn muni hina svokölluðu þjóðarsátt sem menn tala um í samfélaginu og eru búnir að gera ansi lengi. Í hálfan annan áratug hafa menn talað um þjóðarsátt og það ætti kannski að vera farið að renna upp fyrir fólki að einhverjir slíkir hlutir fyrnist og verði svolítið úreltir þegar þeir eru að verða eins og hálfs áratugar gamlir og að þær heitstrengingar sem menn höfðu uppi á þeim tíma séu kannski ekki lengur fullkomlega gildar, enda búið að bregða út af þessari svokölluðu þjóðarsátt býsna oft og af mörgum aðilum í gegnum tíðina.

Hvernig skildu menn þessa þjóðarsátt í upphafi? Ég hygg að flestir hafi skilið hana þannig að sátt væri um að engir aðilar þrengdu fram háum eða nýjum kjörum sem röskuðu því jafnvægi sem væri í samfélaginu og að menn færu varlega í launakröfur og hækkanir á launum í samfélaginu. Þannig held ég að flestir hafi skilið þetta í upphafi. Síðan sáu menn að þetta gat ekki haldið til frambúðar, það varð auðvitað að vera hægt að lagfæra laun hjá einstökum starfshópum og stéttum. Þá var farið að loka öðru auganu gagnvart einhvers konar breytingum á launakjörum. Hækkun lægstu launa hefur það stundum verið kallað og stundum leiðrétting hjá einstökum hópum. Þetta hefur smám saman verið að vinda upp á sig þannig að heilar stórar starfsstéttir hafa jafnvel verið að fá verulega miklar launabreytingar til lagfæringar og skemmst er að minnast t.d. samninga kennara á síðasta ári eða næstsíðasta ári öllu heldur sem menn litu á sem slíka leiðréttingu.

Það sem ég er að segja er að sú stefna sem gilt hefur þennan tíma hlýtur í rauninni að vera úrelt í dag að því leyti til að ekki er hægt að horfa á hana með sömu augum og menn gerðu í upphafi. Auðvitað er full ástæða til að ábyrgir aðilar í samfélaginu fari varlega með samningsréttinn og reyni að sjá til þess að ekki fari allt á hvolf í samfélaginu. En það er ekki hægt að koma með andköfum og upphrópunum þó að nýir kjarasamningar sjái dagsins ljós sem færi láglaunafólki, eins og t.d. umönnunarstéttum hjá Reykjavíkurborg, góðar kjarabætur miðað við þau laun sem þar voru. Þess vegna er ástæða til að menn horfi á kjaramálin kannski með meiri rósemd en raun ber vitni, án þess þó að missa sjónar á þeim stöðugleika sem þarf að varðveita.

Þegar þjóðarsáttarsamningarnir voru gerðir var staðan sú gagnvart launum opinberra embættismanna og þingmanna að um þau hafði verið endalaust stríð. Niðurstaðan varð síðan sú að menn samþykktu lögin um kjaranefnd og Kjaradóm á árinu 1992 og sú leið sem þar var valin hefur verið í gildi síðan og kerfislega séð tel ég að hún hafi reynst nokkuð vel, þó að ég hafi frá upphafi haft þá skoðun að þarna væri ástæða til að skoða betur hvort ekki ætti að vera um eina kjaranefnd að ræða frekar en tvær eins og er núna. En viðmiðanirnar sem þessar nefndir, Kjaradómur og kjaranefnd, hafa haft eru auðvitað teknar af sambærilegum launum í samfélaginu og hætta er á að einhvers konar víxlverkanir fari að myndast þegar um er að ræða annars vegar kjaranefnd og hins vegar Kjaradóm, sem eru jafnvel að taka mið af ákvörðunum hvors annars.

Framkvæmd launastefnu ríkisstjórnarinnar er fólgin í þessu. Það er alveg auðséð að ákvarðanir um laun starfsmanna á vegum ríkisins hafa haft afgerandi áhrif á þær niðurstöður sem hafa komið út úr kjaranefnd og Kjaradómi. Þegar ríkisstjórnin ákvað að hægt yrði að gera þessa svokölluðu stofnanasamninga urðu til með gerð þeirra nýjar viðmiðanir. Þessir stofnanasamningar færðu yfirmönnum stofnana og ýmsum starfsmönnum sem heyra undir Kjaradóm og kjaranefnd miklar hækkanir, þ.e. viðmiðanir sem Kjaradómur og kjaranefnd fá með því að skoða laun yfirmanna stofnana og starfsmanna urðu til að laun hækkuðu verulega í framhaldinu. Ríkisstjórnin getur því ekki annað en axlað ábyrgð af því að ákvarðanirnar fóru að hækka verulega, þær sem kjaranefnd og Kjaradómur voru að taka gagnvart launum opinberra starfsmanna sem þar eiga undir.

Einnig er ástæða til að minna á að forusta launþegasamtakanna hefur látið þessa þróun svona nokkurn veginn átölulausa í gegnum tíðina. Það þarf ekki að segja mér eða öðrum að þeir hafi ekki vitað nákvæmlega hvað var á ferðinni og hvers konar þróun hafi verið í gangi gagnvart embættismönnum og öðrum sem taka laun samkvæmt Kjaradómi og kjaranefnd, en þeir hafa af einhverjum ástæðum ekki beitt sér mjög hart vegna þessara breytinga — þangað til núna í desember sl. að þá virtist vera að þeim fyndist að nú væri nóg komið og þeir mótmæltu þeim úrskurði Kjaradóms sem þá leit dagsins ljós mjög hart. Ég er í sjálfu sér ekki hissa á því vegna þess að þeir hafa boðað hina svokölluðu þjóðarsátt sínu fólki með þeim hætti að hún hefur ævinlega verið notuð til þess að sætta menn við að mínu viti býsna lélega samninga á undanförnum árum fyrir almennt launafólk í landinu og afar lélega samninga í samanburði við kjör margra í samfélaginu. Þess vegna er ég ekki hissa á því þó að komið hafi að þeim degi að forusta launþegasamtakanna í landinu risi upp og segði: Hingað og ekki lengra.

Þetta hefði ríkisstjórninni auðvitað átt að vera fullkomlega ljóst þegar hún var að móta launa- og kjarastefnu sína, að ef hún yrði með þeim hætti að svo miklar hækkanir yrðu sem raun bar vitni mundi hinni svokölluðu þjóðarsátt vera stefnt í voða. En ekki virðast menn á þeim bæ hafa verið svo óttaslegnir gagnvart þessu að þeir hefðu af því þær áhyggjur að þeir kæmu í veg fyrir áframhaldandi launahækkanir. En eftir að dómur var kveðinn upp í desember í Kjaradómi er greinilegt að ríkisstjórnin hefur tekið við sér og telur nú ástæðu til að endurskoða launastefnuna sem uppi er. Spurningin er: Hvernig ætla menn að fara að því? Varla geta menn reiknað með að hægt sé að hoppa til baka og breyta kjörum þeirra til lækkunar sem hafa fengið hækkanir á undanförnum árum. Ég held að engum detti í hug að hægt sé að labba inn í stofnanir ríkisins með nýja kjarasamninga og miklu verri til þeirra sem þar eru og hafa fengið hækkanir á undanförnum árum.

Þess vegna tel ég að það hefði átt að vera leiðin eins og stjórnarandstaðan lagði til fyrir hátíðarnar, fyrir áramótin, að fresta því að niðurstaða Kjaradóms kæmi til framkvæmda, setja af stað skoðun á málinu upp á nýtt hvort og hvernig menn ætluðu að breyta þessari launastefnu ríkisins og láta síðan koma í ljós hvaða leiðir menn fyndu í því efni.

Þetta vildi ríkisstjórnin ekki gera og niðurstaðan er sú að ríkisstjórnin ákveður inngrip má segja handvirkt inn í þá samninga sem fyrir hendi eru, þessa niðurstöðu sem fyrir hendi er. Ríkisstjórnin ákveður það að meiri hlutinn á Alþingi eigi að ákveða þá prósentu sem eigi að koma í staðinn fyrir það sem Kjaradómur hafði ákveðið að ætti að vera. Þessu er ég afar ósammála og tel að þarna hefðu menn átt að klára málið. Úr því að ríkisstjórnin lét ekki að vilja minnihlutaflokkanna á Alþingi og lét þessa hækkun ganga í gegn standa menn frammi fyrir því að sú hækkun sem Kjaradómur kvað upp er orðin staðreynd.

Að mínu viti er helsta leiðin núna sú að setja þá nefnd af stað sem hæstv. forsætisráðherra hefur talað um að setja á laggirnar og láta hana fara að vinna en hlaupa ekki til og grípa inn í þá niðurstöðu sem fyrir liggur og hefur komið til framkvæmda. Það finnst mér vera afar slæm niðurstaða, fyrir nú utan það að ljóst er að það er margt sem ástæða er til að skoða því að þessi ákvörðun getur t.d. farið í bága við stjórnarskrána. Hún getur það gagnvart forseta Íslands þar sem algjörlega skýrt ákvæði er þar sem segir að óheimilt skuli að lækka greiðslur til forseta kjörtímabil hans. Í athugasemdum við frumvarpið er talað um það sérstaklega og vitnað í athugasemdir með stjórnarskránni 1944. Í skýringum er sérstaklega tekið fram að með ákvæðinu sé einungis verndaður réttur forseta til sömu krónutölu og hann hefði í upphafi haft, en engan veginn tryggt að kaupmáttur krónunnar haldist óbreyttur.

Mér finnst þetta ekki nægileg rök í málinu, að þetta orðalag hafi verið þarna til staðar í athugasemdum. Það sem gildir er auðvitað það sem stendur í sjálfri stjórnarskránni, fyrir nú utan það að með dómi Kjaradóms er komin niðurstaða í krónutölu og með því að þetta frumvarp yrði að lögum væri verið að breyta þeirri krónutölu. Ef menn vilja fara í hártoganir út af einhverju orðalagi er full ástæða til að gefa gaum að þessu.

En það er fleira sem varðar stjórnarskrána sem ástæða er til að gefa gaum ef niðurstaðan verður þessi. Það eru fleiri en ég og þeir lagaprófessorar sem hafa látið í sér heyra, Sigurður Líndal t.d., sem hafa nefnt að þetta fari í bága við stjórnarskrána hvað varðar forsetann.

Og nú hefur borist bréf til þingflokksformanna. Það bréf skrifar Dómarafélag Íslands til forseta Alþingis og ég sé ástæðu til að lesa það vegna þess að það hefur ekki verið gert að umræðuefni hér. Það á sannarlega erindi inn í þessa umræðu.

Bréfið er stílað: Til Alþingis Íslendinga. Forseti Alþingis, frú Sólveig Pétursdóttir, en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Kjaradómur hefur allt frá því að hann var stofnaður árið 1962 ákveðið laun dómara, fyrst hæstaréttardómara og síðan einnig héraðsdómara frá árinu 1984. Að baki þessu býr það sjónarmið að ekki er æskilegt að framkvæmdarvaldið fjalli um eða ákveði laun dómara.“

Þarna eru dómarar að fjalla um kjör sín og hvort Alþingi geti gripið inn í með þeim hætti sem hér er ætlað. Ég ætla ekki að lesa þetta bréf allt saman upp en vitna aðeins í það.

Þar er m.a. sagt:

„Athygli er vakin á því að fyrirhuguð breyting til lækkunar á kjörum þeirra sem falla undir Kjaradóm beinist aðeins að fámennum hópi ríkisstarfsmanna. Leikur vafi á hvort slík ákvörðun stenst 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar um jafnræði.“

Hér er sem sagt Dómarafélag Íslands að skrifa hæstv. forseta Alþingis.

Svo segir hér, með leyfi forseta:

„Einnig skal áréttað að ákvörðun Kjaradóms frá 19. desember sl. hefur þegar tekið gildi. Löggjafinn hefur með setningu laga nr. 120/1992 fengið mönnum þann rétt til launa sem Kjaradómur ákveður og eru þau laun með því orðin eign þeirra og verður þeim ekki breytt vegna þeirrar verndar sem eignarréttur nýtur samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar.“

Áfram segir, með leyfi forseta:

„Með bréfi dagsettu 11. þ.m.“ — ég vek athygli á því, 11. þ.m. — „beindi stjórn Dómarafélags Íslands samhljóða erindi til forsætisráðherra. Í því bréfi var þess einnig farið á leit að ekki yrði lagt til við Alþingi að breyting yrði gerð á þeim kjörum sem dómurum hafa verið ákveðin af Kjaradómi. Kæmi hins vegar til þess að Alþingi samþykkti breytingar í þá veru kynni félagið að telja sig knúið til þess að láta reyna á hvort þær væru samrýmanlegar stjórnarskránni.“

Ég verð að segja það alveg eins og er að ég átel hæstv. forsætisráðherra harðlega fyrir að hafa setið á þessu bréfi. Hann fékk þetta bréf frá Dómarafélaginu þann 11. janúar, fyrir sex dögum, og kom þessum sjónarmiðum ekki einu sinni á framfæri þegar umræðan fór af stað. Helst hefði ég kosið að hæstv. forsætisráðherra hefði gert það fyrr og strax og hann fékk bréfið í hendur. Það á vissulega erindi inn í þá umræðu sem hér fer fram. (Gripið fram í: Fjármálaráðherra …) Hæstv. fjármálaráðherra virðist ekki hafa fengið þetta bréf í hendur. Hann upplýsir það sjálfsagt hér á eftir hvort hann hefur séð þetta bréf og hvort hann hefur talið ástæðulaust að taka mark á því. Af gerðum hæstv. forsætisráðherra má ráða að hann hefur ekki talið ástæðu til þess að veita þessu bréfi neina sérstaka athygli.

Það er dálítið merkilegt með þá ríkisstjórn sem nú situr og hefur setið lengi að þegar upp koma vafamál gagnvart stjórnarskránni hefur stjórnarskráin ekki verið látin njóta vafans jafnvel þó að á þau sé bent af til þess bærum aðilum. Það hefur ævinlega verið látið reyna á það hvort stjórnarskráin stenst þegar að herðir. Alþingismenn eiga ekki að standa þannig að málum. Sé vafi uppi eiga menn að láta stjórnarskrána njóta hans.