132. löggjafarþing — 44. fundur,  17. jan. 2006.

Kjaradómur og kjaranefnd.

417. mál
[17:43]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að segja að mér finnst ánægjulegt að heyra hv. þingmann lýsa því yfir að hann telji rétt að fara eftir lögum enda þótt þau séu ranglát. Það er út af fyrir sig ágætt að hafa það í þingtíðindum.

Mér fannst kveða við þann tón að hv. þingmaður teldi að ég hefði einhverja þá skoðun á forseta Íslands sem leiddi til að ég hefði sérstakan áhuga á að lækka laun forsetans. Ég vil bara nota tækifærið og vísa því algjörlega á bug. Þar eru engin tengsl á milli. Ég hef engan sérstakan áhuga á að lækka laun forseta Íslands nema þá í því samhengi sem við vinnum að hér. Ég tel rétt að hið sama verði látið yfir alla ganga sem fá laun sín ákvörðuð á þennan hátt. Það væri rangt af okkur að undanskilja forsetann í þessu efni. Ég tel enga ástæðu að finna í stjórnarskránni, miðað við þær skýringar sem fylgdu breytingunum, sem leiði til að við ættum að víkja frá því að hið sama verði látið yfir alla ganga í þessu efni. Enda byggist það á forsendum (Forseti hringir.) þessa frumvarps.