132. löggjafarþing — 44. fundur,  17. jan. 2006.

Kjaradómur og kjaranefnd.

417. mál
[17:45]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil svo sem ekki gera hæstv. fjármálaráðherra upp þá skoðun að það sé vegna viðhorfa hans til forseta Íslands sem hann er að leggja til að þessi laun séu lækkuð. Það þarf ekkert að koma á óvart þó að við reynum að leita skýringa og átta okkur á því hvers vegna hæstv. ríkisstjórn gengur fram með þessum hætti í ljósi skýrra ákvæða stjórnarskrárinnar sem kveður mjög skýrt á um að óheimilt sé að lækka laun forseta. Og það þarf ekkert að koma á óvart þó að hugrenningar eins og þessar vakni í ljósi þeirrar umræðu sem fram hefur farið og flokksmenn hæstv. fjármálaráðherra hafa kannski staðið fyrir að miklu leyti frá því að núverandi forseti var kjörinn með lýðræðislegum hætti. Maður spyr hvernig á því standi að hæstv. fjármálaráðherra sé í raun og veru tilbúinn að taka þessa áhættu í ljósi skýrra ákvæða stjórnarskrárinnar og beita því fyrir sig að lögskýringagögn gangi framar skýrum orðum stjórnarskrárinnar. Það er þetta sem situr eftir.