132. löggjafarþing — 44. fundur,  17. jan. 2006.

Kjaradómur og kjaranefnd.

417. mál
[17:49]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þetta tækifæri til að leiðrétta það ef einhver hefur skilið það svo að ég hafi sagt að það hafi verið ámælisvert að hækka launin. Ég hef hvergi tjáð mig um þá samninga sem gerðir voru hjá Reykjavíkurborg eða látið í ljós eitthvert sérstakt álit á þeim og var ekki að því áðan. (Gripið fram í.) Ég held reyndar að það sé ekki tilhlýðilegt vegna þeirrar stöðu sem fjármálaráðherra hefur gagnvart samningsaðilum sínum að hann sé að tjá sig sérstaklega og hafa skoðanir á þeim samningum sem aðrir í opinbera geiranum gera. Það sem ég er hins vegar að reyna að segja er að það verður auðvitað að skoða þessa umræðu um launahlutföllin og launaþróunina í samhengi við það sem áður hefur verið að gerast. Menn verða að gera það á raunhæfan hátt og ef menn ætla að gera á því breytingar þarf miklu meira að gerast en einhver innantóm slagorð. Hættan er alltaf sú og reynslan sýnir það að hækkun hjá hinum lægst launuðu verður ekki bara þar heldur fer upp allan skalann og þá er hún hættuleg.