132. löggjafarþing — 44. fundur,  17. jan. 2006.

Kjaradómur og kjaranefnd.

417. mál
[17:55]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég skil þessi svör hæstv. fjármálaráðherra þá svo að hann taki einfaldlega undir þann skilning sem fram kemur í bréfi formanns Kjaradóms að rekja megi hækkunina til ákvarðana ríkisstjórnarinnar og hann sé ekki ósammála því.

En það kemur einnig fram í þessu ágæta bréfi, sem skrifað er á aðfangadag til hæstv. forsætisráðherra, að með þessari hækkun nái laun samkvæmt Kjaradómi sem verið er að fella úr gildi með frumvarpinu ekki þeirri launaþróun sem orðið hefur á þessu árabili sem má, samkvæmt bréfi formannsins, fyrst og fremst rekja til ákvarðana ríkisstjórnarinnar. Er ráðherra sammála þessu eða ósammála? Það væri gott að fá það fram í umræðunni en kenna ekki stjórnarandstöðunni um að vera að drepa málinu á dreif.