132. löggjafarþing — 44. fundur,  17. jan. 2006.

Kjaradómur og kjaranefnd.

417. mál
[17:58]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um Kjaradóm og kjaranefnd. Í því sambandi komumst við ekki hjá því að ræða dálítið um þrískiptingu valdsins sem er hugmynd heimspekinga frá því úr frönsku stjórnarbyltingunni um það að til að vernda borgarann þurfi að skipta ríkisvaldinu í þrennt, þ.e. dómsvald, framkvæmdarvald og löggjafarvald og að þessir þrír þættir eigi að vera óháðir.

Nú er mjög margt í okkar kerfi á Íslandi sem brýtur þessar reglur. Við erum t.d. með ráðherra sem bæði er framkvæmdarvald og löggjafarvald í sömu persónunni. Við erum með forseta sem bæði er framkvæmdarvald og löggjafarvald að forminu til og við erum með fjárlagafrumvarp sem ákveður ákveðnar framkvæmdir fyrir framkvæmdarvaldið sem enginn ber þá ábyrgð á og flest frumvörp sem Alþingi samþykkir eru ekki samin af Alþingi heldur af ráðuneytum, þ.e. framkvæmdarvaldinu og meira að segja af þeim stofnunum, frú forseti, sem framkvæma lögin, sem er að mínu mati afskaplega hættulegt þegar þeir sem framkvæma lögin eru í þeirri stöðu að semja fyrsta uppkast að lögunum. Þá er alltaf hættan sú að framkvæmdaraðilinn semji vopn í hendurnar á sér til að berja á borgurunum.

Við erum líka með lágmarksrefsingar í ýmsum lögum sem segja má að sé inngrip löggjafarvaldsins í dómsvaldið því að dómarar geta þá ekki lengur dæmt eins og þeim finnst sanngjarnt og þeir eiga að fylgja sannfæringu sinni í því. Við erum því með ýmislegt sem brýtur þessa þrískiptingu og eitt af því er t.d. Kjaradómur hvar hann tilheyrir í þessari þrískiptingu. Samkvæmt nafninu heyrir hann undir dómsvaldið en sumir segja að hann sé í rauninni bara framlenging á framkvæmdarvaldinu og heyri undir fjármálaráðuneytið þó að það geti ekki sagt til um hvernig Kjaradómi eigi að dæma.

Þegar menn taka ákvarðanir í lífinu þá hafa þær ákvarðanir áhrif á aðra einstaklinga. Ef ég geng eftir Austurstræti þarf ég að gæta mín á að rekast ekki utan í næsta mann. Þetta eru óskrifuð lög mikið til og margar ákvarðanir sem við tökum hafa áhrif á aðra. Ég hef kallað það að þar séu haghafar í samræmi við hugtakið hluthafar í hlutafélögum. Það eru haghafar sem hafa hag af ákvörðun sem ég tek. Sumar ákvarðanir eru þess eðlis að þær mikil áhrif, t.d. starfslokasamningar sem trufla mjög marga, t.d. ofurlaun hjá fótboltamönnum, tónlistarmönnum og forstjórum. Menn virðast aðallega horfa á síðastnefnda hópinn í ofurlaunum en síður á fótboltamenn eða tónlistarmennina sem fá launin erlendis. Þetta truflar allan samanburð í kjaramálum. Starfslokasamninga hef ég aldrei skilið. Ég skil ekki hvers vegna ætti að borga mönnum fyrir að hætta að vinna. Það er allt í lagi að borga þeim fyrir að byrja að vinna og fyrir að vinna en ekki fyrir að hætta að vinna. Það hef ég aldrei skilið.

Inn í þetta kemur líka umræðan um sýnileg laun og ósýnileg. Talað hefur verið um lífeyrisréttindi þingmanna, að þau séu sérstök. Það hefur verið talað um starfskostnaðargreiðslu sem flestir þingmenn taka en ekki þó allir. Það hefur einnig verið talað um það þegar forseti var skattfrjáls, ekki kom það fram. En þegar skattfrelsið var afnumið að tillögu sem lögð var fram á Alþingi, um að hann borgaði skatt eins og aðrir, þá þurfti að hækka launin og nánast tvöfalda þau. Þar voru sem sagt ósýnileg laun sem fólust í því að hann borgaði hvorki virðisaukaskatt, tekjuskatt eða yfirleitt nokkra skatta og makinn ekki heldur á sínum tíma. En það hefur verið aflagt.

Málið sem hér er til umfjöllunar er afskaplega vandræðalegt vegna þess að við erum a fjalla um okkar eigin laun. Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson sagði reyndar að hann hefði oft samið um laun sín. Það er eflaust rétt en þá er hann að semja við einhvern annan en sjálfan sig. Hann var að semja við útgerðarmann, eða einhvern slíkan, sem stóð á bremsunni gegn því að hækka launin. En við borgum launin sjálf, við ákveðum fjárveitinguna og við borgum þau sjálf. Þess vegna er þetta afskaplega vandræðalegt mál.

Það er alltaf vandræðalegt í þessari þrískiptingu valdsins að finna út hver eigi að ákveða launin á toppnum. Hver á að ákvarða laun hæstaréttardómara? Hver á að ákvarða laun þingmanna? Hver á að ákvarða laun ráðherra? Eigum við að láta Kjaradóm gera það? Hann heyrir undir dómsvaldið og er þá í raun að ákvarða sín eigin laun. Hann er tilnefndur af Hæstarétti, eins og staðan er í dag, og Alþingi og ráðuneyti. Hann er því í rauninni að ákvarða eigin laun. Þetta eru vandkvæðin en ég kem inn á þau á eftir.

Kjaradómurinn sem féll í desember kom á afskaplega óheppilegum tíma og getur varla hugsast verri tími. Þá var nýbúið að ganga frá kjarasamningum á almennum markaði vegna svokallaðra rauðra strika, vegna þess hve húsnæðisverð hafði hækkað mikið, og eingöngu vegna þess, sýndi verðbólgan mjög háa tölu. Án húsnæðisverðsins var mjög lítil verðbólga en þetta dugði til að kjarasamningar voru í uppnámi. Það þurfti að semja. Menn náðu tiltölulega góðri lendingu í því, mjög farsælli lendingu fyrir alla. Menn sáu fram á að ekki yrðu verkföll og kjarasamningar ekki lausir. Þar náðist lending en ekki voru allir sáttir við það. Launahækkunin var mjög lítil og hæfileg. Í kjölfar þessa, rétt á eftir, kemur úrskurður Kjaradóms um 8% hækkun til toppanna í þjóðfélaginu. Þeirra laun eru kannski einna mest í umræðunni. Ég segi ekki að allt hafi orðið vitlaust, frú forseti, en um þetta urðu miklar umræður. Þetta var mjög óeðlilegt.

Þá komum við að þessu sem ég nefndi áðan, um haghafa. Menn geta ekki hegðað sér, eigi að vera jafnvægi í þjóðfélaginu, eins og þeir séu einir, eyland. Þeir verða að taka mið af öllum aðstæðum. Það hefði þurft að gera í þessu dæmi líka. Þess vegna er þetta frumvarp fram komið. Það mildar áhrifin af ákvörðun Kjaradóms og ég styð það vegna þess.

Ef við ræðum hins vegar um þrískiptingu valdsins og ef Kjaradómur er dómstóll, eins og stendur reyndar í lögum um hann, með leyfi frú forseta: „Kjaradómur skal skipaður fimm dómendum og jafnmörgum varadómendum.“ Það er talað um dómara þannig að þetta er dómstóll. Þar með er bréf hæstv. forsætisráðherra til dómsins í raun inngrip framkvæmdarvaldsins í dómsvaldið og það sem við ræðum í dag, lagabreytingin, inngrip löggjafarvaldsins í dómsvaldið. Hvort tveggja er afskaplega varasamt ef við lítum á það að verja borgarann fyrir ofríki ríkisins. En nú er það ekki þannig að hæstaréttardómarar og þingmenn séu veikasti þátturinn í mannlífinu. Ef við horfum á þetta með þeim augum og gætum þess að þetta verði ekki fordæmi, að Alþingi geti farið að breyta dómum með lögum, þá er þetta kannski í lagi. En ég vil benda á að allir ættu að stefna að því að hafa þessa þrískiptingu valdsins eins hreina og hægt er. Þess vegna ætti svona lagað ekki að koma fyrir aftur.

Laun þingmanna eru afskaplega vinsælt umræðuefni. Þau hafa ekki verið hækkuð svo ég muni án þess að um það hafi spunnist gífurlegar umræður um allt þjóðfélagið. Margir hafa áhuga á þessu. Sérstaklega þeir sem eru jafnvel með hærri laun. Það eru kannski fulltrúar ASÍ og SA sem hafa miklar skoðanir á launum þingmanna án þess að gefa upp sín eigin laun. Ég veit ekki einu sinni hvaða laun þeir hafa. En þeir hafa miklar skoðanir á launum þingmanna og laun þingmanna mega helst ekki hækka mikið. Árið 1992 var þetta leyst þannig að þingmenn, í staðinn fyrir að ákveða laun sín sjálfir, settu þeir upp Kjaradóm og töldu sig þar með hafa leyst málið þannig að óháður aðili sem ákvæði þetta. Það breytir engu. Þetta er jafnmikið ágreiningsefni í þjóðfélaginu eftir sem áður.

Þetta er dálítið skrýtið. Ég tel að flestir vilji að Alþingi sé sæmilega mannað. Til þess að fá mannskap á skútuna þarf væntanlega að borga sæmileg laun þannig að menn tapi ekki miklu í lífskjörum við það að verða þingmenn. Heilmikið hefur áunnist í því með Kjaradómi. Ég held að laun þingmanna hafi hækkað umtalsvert og væntanlega hafa fleiri áhuga á því að bjóða sig fram til þings, enda er mikil velta í þingsalnum og mikil breyting í hverjum einustu kosningum, sem menn átta sig kannski ekki á.

Áðan var rætt um eignarrétt og bréf sem var vitnað í. Nú er það þannig að laun eru gjald fyrir vinnu, þau eru ekki réttindi. Menn vinna til að fá laun. Ef menn líta á launin sem eignarrétt þá segja þeir að menn vinni ekki fyrir laununum sínum. Ég skil það þannig. Ég held að laun geti aldrei orðið eignarréttur vegna þess að það á að koma vinna á móti. Það má ekki gleyma því.

En varðandi vandamálið hver eigi að ákvarða laun ráðherra, þ.e. framkvæmdarvaldsins; dómara, þ.e. dómsvaldsins; og þingmanna, þ.e. löggjafarvaldsins, þá hef ég stungið upp á því, og sting upp á því enn, að við förum eftirfarandi leið, frú forseti: Fráfarandi þing ákvarði laun næsta þings í tíma. Ef við mundum ákveða núna fyrir vorið að laun þingmanna yrðu einhver tala, 500 þús. kr. eða eitthvað slíkt og lífeyrisréttur eins og fyrir venjulegt fólk, eitthvað svoleiðis, eða við segjum að launin yrðu 700 þús. kr., ef einhverjum þykir það betra. Ef einhverjum finnst þau laun vera há þá býður sá hinn sami sig fram til þings. Það er fínt og þá yrði væntanlega meira framboð af hæfara fólki á þing, eða jafnhæfu eða hvernig sem það vill vera. Þá verður meira fjör í prófkjörum. Ef núverandi þingmenn ákveða þessa tölu mjög háa þá ættu þeir á hættu að missa þingsæti sitt og missa af laununum. Þeir mundu sem sagt saga af greinina sem þeir sitja á. Ég held að þetta væri ágætisleið til að losa úr þessari klemmu. Það virkar greinilega ekki að setja þetta yfir á dómsvaldið.

Síðan vil ég að Alþingi, vegna þess að það hefur fjárveitingavald, ákvarði laun bæði dómara, dómsvaldsins, og ráðherra, framkvæmdarvaldsins, þ.e. það sem þeir fá til viðbótar við þingfararkaup. Þetta yrði einnig gert tímanlega og ákvarðað fyrir næsta kjörtímabil. Rökstuðningurinn bak við þessa hugmynd er sá að Alþingi er alltaf kosið á fjögurra ára fresti. Það getur ekki treyst því að halda vinnunni áfram. Þess vegna getur það lagt til bæði laun næsta þings og hinna þáttanna í þrískiptingu valdsins. Þetta er hugmynd sem ég vildi gjarnan að menn ræddu í alvöru til að leysa þennan vanda. Þegar búið er að ákvarða launin fyrir næsta kjörtímabil — síðan má hafa það einhverja verðtryggingu á því innan kjörtímabilsins í fjögur ár. En ef mönnum finnast launin há þá geta þeir boðið sig fram. Það er bara æskilegt og fínt. Þá væri hugsanlegt að þeir sem láta hæst hjá aðilum vinnumarkaðarins byðu sig bara fram til þings, þeim sem þættu launin vera góð. Þá fáum við kannski enn hæfara fólk á þing.