132. löggjafarþing — 44. fundur,  17. jan. 2006.

Kjaradómur og kjaranefnd.

417. mál
[18:13]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Er þetta ekki, þegar öllu er á botninn hvolft, einfaldlega mjög varasöm hugmynd, þ.e. að menn geti einfaldlega ákveðið launin það lág að einungis efnamenn sem sækist í þessi störf? En burt séð frá því er ég ósammála því viðhorfi að menn stjórnist af og ráði sig í störf eingöngu vegna launa. Þar skipta ýmsir aðrir þættir verulega miklu máli. Fólk vill einfaldlega standa sig og láta gott af sér leiða. Það á við um þingmenn og í öðrum störfum, t.d. framkvæmdastjóra. Þessi umræða um laun og að menn fái einfaldlega betri framkvæmdarstjóra við að hækka launin eða hafa ofurháa starfslokasamninga, finnst mér komin út í óefni. Ég held að það þurfi að fara að vinda ofan af þessu. Þetta er hrein og klár vitleysa.