132. löggjafarþing — 44. fundur,  17. jan. 2006.

Kjaradómur og kjaranefnd.

417. mál
[18:14]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Menn vinna örugglega af margvíslegum hvötum. Það eru mismunandi hvatir sem leiða til þess að menn sinni starfi af fullri alúð. Það er rétt að sumir sýna mikinn metnað þrátt fyrir lág laun. Hins vegar er þjóðfélag okkar þannig uppbyggt að menn eru verðlaunaðir með hærri launum. Það er þannig. Þetta hefur viðgengist á skipum, að menn eru fá hlut af aflaverðmætum. Það er til að verðlauna þá sem fiska mikið. Við borgum mönnum hærri laun fyrir ábyrgð, menntun, dugnað og snilld þannig að laun eru ákveðinn mælikvarði á hvernig menn standa sig í starfi.

Þó er kannski rétt hjá hv. þingmanni að kannski hafi verið lögð of mikil áhersla á að þetta sé eini mælikvarðinn og að hugsanlega megi hverfa frá þeirri hugsun að miða svo mikið við laun. Ég tek undir það. En ég held að við hverfum ekki frá því að laun verði alltaf einhver mælikvarði á það hvernig menn standa sig í starfi, hvort þeir eru duglegir, stundvísir, snjallir, trúir, vel menntaðir o.s.frv. Ég held að það þurfi alltaf að borga það með launum.