132. löggjafarþing — 44. fundur,  17. jan. 2006.

Kjaradómur og kjaranefnd.

417. mál
[18:26]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Hér er til umræðu frumvarp til laga um breytingu á lögum um Kjaradóm og kjaranefnd. Ég hélt að ég yrði þess heiðurs aðnjótandi að verða síðasti ræðumaðurinn til að taka þátt í 1. umr. um frumvarp ríkisstjórnarinnar. En mér sýnist reyndar að hv. þingmaður Ögmundur Jónasson taki við keflinu af mér og klári þetta mál.

Það er athyglisvert að það eru ekki margir þingmenn ríkisstjórnarflokkanna sem hafa tekið til máls í þessari umræðu. Enda er þetta vandræðamál fyrir ríkisstjórnina. Við þekkjum öll farsann sem fór af stað rétt fyrir jólin þar sem hæstv. forsætisráðherra fór með aðalhlutverk og formaður Sjálfstæðisflokksins fór með aukahlutverk og svo átti varaformaður fjárlaganefndar innkomu sem var afar dramatísk, reyndar í gegnum síma í beinni útsendingu á einni útvarpsstöðinni. Það hafði verið mikil umræða um laun og launaskrið í landinu og mottóið hjá sumum var að það væri eðlilegt að laun toppanna og forstjóra á ofurlaunum mundu hækka. En stórhættulegt að laun þeirra sem minnst úr býtum bera mundu nokkuð hækka. Borgarstjórinn, Steinunn Valdís, fékk skömm í hattinn frá nokkrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins fyrir að gera samning við borgarstarfsmenn á lágum launum því sá samningur mundi koma af stað miklu launaskriði upp allan skalann og þá væri voðinn vís. Um þetta hafa þingmenn haft nokkra umræðu hér í dag. Þegar Kjaradómur úrskurðar að dómarar, þingmenn, ráðherrar og fleiri eigi að fá rúmlega 8% launahækkun kom það hæstv. forsætisráðherra gífurlega óvart. En lengi vel gerir hann samt ekkert í málinu þrátt fyrir að stjórnarandstaðan krefjist þess að þing komi saman til að ræða þessi mál og afnema hækkunina. Þá humma menn það bara fram af sér alveg nægilega lengi til að það sé orðið of seint og fara jafnvel fram á að Kjaradómur hugsi sig nú betur um. Hvort hann sé ekki til í að lækka þessa prósentutöluhækkun eitthvað svo að almúginn sé nú sáttur. Svo er reynt að sparsla eitthvað yfir vandræðaganginn með að taka málið upp núna og breyta úrskurði Kjaradóms afturvirkt. Svo fréttum við að forstjórar stórfyrirtækjanna séu á himinháum launum, miklu hærri en okkur hefði órað fyrir og á ég þá við stjarnfræðilega starfslokasamninga, jafnvel eftir nokkurra mánaða störf. Þá blöskrar auðvitað sumum. Ég fagna hins vegar umræðunni sem fór af stað í kjölfarið. Það kemur nefnilega í ljós að launabilið er og hefur verið að stóraukast á síðustu missirum. Sú staðreynd sem við í Vinstri hreyfingunni — grænu framboði höfum haldið fram, að við séum að sigla á ofsahraða frá norrænu samfélagi þar sem laun hafa verið nokkuð jöfn og sanngjörn, inn í eitthvert amerískt módel með forstjórum á súperlaunum og ráðherrum sem eru yfir alla hafnir. En viljum við þetta? Vill íslenska þjóðin að launabilið sé að aukast og verði meira í ætt við Ameríku en Ísland? Nú er hægt að velta því fyrir sér hvað séu sanngjörn laun og hvað ekki og hversu mikil ábyrgð fylgir hverju starfi o.s.frv. Hv. þingmaður Ögmundur Jónasson fór einmitt inn á þau mál fyrr í umræðunni og velti þar upp áhugaverðum samanburði.

Mér þótti skemmtilegt þegar einn af fáum þingmönnum ríkisstjórnarinnar tók til máls áðan, hv. þingmaður Pétur H. Blöndal, þá vildi hann bæta inn í þessa ofurlaunagrúppu fótboltaköppum og tónlistarmönnum. Skýtur það nú nokkuð skökku við vegna þess að við vitum að fótboltamenn eiga nú venjulega ekki alveg eins langan starfsferil og forstjórar. Mér að vitandi eru laun tónlistarmanna afar mismunandi og hátt kaup þeirra varir venjulega stutt. Þetta er auðvitað bara liður í því að reyna að sópa þessari umræðu undir teppið. Ríkisstjórnin er nefnilega komin í klemmu.

Með ósanngjörnum eftirlaunalögum sem ríkisstjórnin setti stuttu fyrir jólin 2003 hófst ferli sem við sjáum ekki enn þá fyrir endann á. Þetta frumvarp varpar ljósi á það skrúfstykki sem stjórnin er í og er að reyna að losa sig úr með vandræðalegum hætti.