132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Gögn með frumvarpi um Ríkisútvarpið.

[12:06]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Það er rétt sem fram kom hjá hv. þm. Merði Árnasyni að hann óskaði eftir því á fundi menntamálanefndar fyrir nokkru að umrædd gögn yrðu lögð fram. Í framhaldi af því óskaði ég eftir að fá gögnin í hendur frá menntamálaráðuneytinu að hans beiðni. Þegar mér bárust svör frá ráðuneytinu lá fyrir að gögnin voru ekki tilbúin, þau lágu ekki fyrir enda voru samskipti milli ráðuneytanna og Eftirlitsstofnunar EFTA bæði á skriflegu og munnlegu formi. Mál eins og þessi hafa reyndar verið til umræðu og ég veit að fulltrúar ráðuneytisins voru nú í þessari viku á fundi ESA þar sem mér skilst að þessi málefni hafi m.a. verið til umræðu. Ég tel því rétt að ráðuneytið og Eftirlitsstofnunin fái svigrúm til að ganga frá þessum gögnum þannig að hægt verði að leggja þau fram með formlegum hætti.

Ég get líka upplýst hv. þingmann um að ég hef upplýsingar úr ráðuneytinu um að það verði gert. Menntamálanefnd munu berast þessi gögn þegar þar að kemur og ég geri ráð fyrir að það verði fyrr en síðar, ég óskaði sérstaklega eftir upplýsingum um það í dag að loknum fundi menntamálanefndar.

Ég er hins vegar ósammála hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni um að ekki sé hægt að ræða frumvarp menntamálaráðherra um Ríkisútvarpið. Ég tel að það sé alveg hægt og veit ekki betur en að það sem þar kemur fram um samskipti ráðuneytisins við ESA sé satt og rétt og þar sé hlutunum rétt til haga haldið. Hann spyr af hverju verið sé að keyra málið áfram. Það er ekki verið að keyra málið áfram, það er engin ástæða til að bíða með það og ég bendi á að m.a. Starfsmannasamtök RÚV hafa sérstaklega óskað eftir því að málinu verði hraðað þannig að hægt verði að (Forseti hringir.) eyða óvissu um framtíð starfsmanna þeirrar stofnunar, hvort sem hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni finnst það fyndið eða ekki.