132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Gögn með frumvarpi um Ríkisútvarpið.

[12:13]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil fá að hefja mál mitt á því að þakka hv. þm. Merði Árnasyni fyrir að hafa vakið athygli okkar á Alþingi á þessum málatilbúnaði öllum saman því að þjóðinni hefur jú verið talin trú um það að einmitt þetta álit frá Eftirlitsstofnun EFTA skipti mjög miklu máli þegar tekin var sú ákvörðun að breyta frumvarpi um Ríkisútvarpið.

Ég er hér með grein úr Morgunblaðinu 6. desember sl. þar sem segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Í frumvarpi ráðherra um Ríkisútvarpið sem lagt var fram á Alþingi sl. vor, var eins og kunnugt er, gert ráð fyrir því að stofnuninni yrði breytt í sameignarfélag. Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) gerði hins vegar umtalsverðar athugasemdir við það fyrirkomulag. Þær áttu því þátt í því að gerðar eru tillögur um hlutafélagaform í nýju frumvarpi.“

Í ljósi þess hljóta hin loðnu svör sem við fengum að vekja mikla furðu, þær upplýsingar sem við fengum hjá formanni menntamálanefndar, hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni, að þetta byggi í rauninni allt saman á mjög óljósum forsendum, einhverju ótilgreindu skriflegu efni, vænti ég, og síðan einhverju snakki við embættismenn úti í Evrópu, sennilega í gegnum símalínur. Þetta eru náttúrlega vinnubrögð sem eru ekki boðleg og ég vil segja að hér leggst nú frekar lágt fyrir kappana í Sjálfstæðisflokknum sem kenna sig við sjálfstæði og tala oft digurbarkalega um fullveldi þjóðarinnar, að þeir skuli núna lúta erlendu valdi, lúta svo lágt fyrir erlendu valdi að það sé í raun og veru ekki annað sem þurfi til til að þeir breyti heilu frumvörpunum, frumvörpin skipta miklu máli, en að hafa átt í einhverju ótilgreindu snakki við ókunnuga embættismenn sem enginn veit hverjir eru, hvaða umboð þeir hafa og annað þar fram eftir götunum. Þetta er náttúrlega einfaldlega ekki boðlegt, hér hljóta menn, sérstaklega hæstv. menntamálaráðherra, að gera snarlega bragarbót á.