132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Eldsneytisflutningar til Keflavíkurflugvallar.

261. mál
[12:27]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að bera upp þessa fyrirspurn.

Í fyrsta lagi er spurt: „Hefur ráðherra einhver áform um að beita sér fyrir því að hætt verði að flytja um 80.000 tonn af eldsneyti með tankbílum frá Reykjavík um Reykjanesbraut til Keflavíkurflugvallar?“

Svar mitt er svohljóðandi: Fyrir það fyrsta tel ég að við eigum að leita allra leiða til að dregið sé úr eldsneytisflutningum eftir miklum umferðaræðum. Hins vegar er alveg ljóst að ekki verður hægt að flytja eldsneyti á milli Keflavíkur og Reykjavíkur nema önnur leið finnist til að tryggja eldsneyti fyrir flugvélar á Keflavíkurflugvelli. Í athugun er hjá utanríkisráðuneytinu og varnarliðinu að viðskiptavæða hluta af eldsneytisbirgðastöðinni í Keflavík og sinna þaðan eldsneytisþörf almennrar flugstarfsemi á Keflavíkurflugvelli. Ég vona að niðurstaða liggi fljótlega fyrir og hún leiði til þess að dregið verði úr akstri með eldsneyti milli Reykjavíkur og Keflavíkur eins og mögulegt er.

Í öðru lagi er spurt: „Mun ráðherra beita sér fyrir því að þessu eldsneyti verði frekar skipað upp í Helguvíkurhöfn?“

Eins og ég sagði er unnið að því að fá hluta eldsneytisgeymslunnar í Helguvík undir hluta þess eldsneytis sem í dag er ekið milli Reykjavíkur og Keflavíkur, þ.e. flugvélaeldsneyti sem flutt er til Keflavíkurflugvallar. Það er mikilsvert að vel takist til en málið er í höndum varnarliðsins og utanríkisráðuneytisins eins og hv. þingmenn vita. Ég mun fyrir mitt leyti styðja þessar fyrirhuguðu breytingar eftir því sem ég get en þar verða heildarhagsmunir að ráða og lausn að finnast á þeim aðstæðum sem eru í Helguvík.

Í þriðja lagi er spurt: „Hefur farið fram áhættugreining á þessum miklu eldsneytisflutningum um byggð á höfuðborgarsvæðinu, eftir Reykjanesbraut til Keflavíkurflugvallar?“

Áhættugreiningar hafa verið gerðar m.a. af Olíudreifingu árið 2000 en einnig hefur Skeljungur unnið afleiðingamat. Niðurstaðan var sú að áhætta væri mjög lítil en hún hefur síðan minnkað vegna tvöföldunar hluta Reykjanesbrautar. Í greiningu Olíudreifingar kom m.a. fram að flutningar eldsneytis á milli Reykjavíkur og Keflavíkur eru lítill hluti umferðar á leiðinni. Allir þungaflutningar, þar með talið eldsneytisflutningar, hafa í för með sér vissa hættu. Aðrar flutningaleiðir en um Reykjanesbraut eru lengri og auka þar með heildaráhættu, þ.e. aðra hættu en mengun vatnsbóla og losun gróðurhúsalofttegunda. Með Suðurstrandarvegi skapaðist nýr möguleiki á flutningi eldsneytis til Grindavíkur en um umtalsvert lengri leið væri að ræða og því yrði fyrst og fremst um tilflutning á áhættu að ræða ef sú leið yrði farin. Ekki er um aðrar leiðir að ræða til Keflavíkur. Komið hefur til tals að flytja olíu sjóleiðina til Grindavíkur. Sú leið krefst umtalsverðs fjárfestingarkostnaðar. Ný mannvirki í Grindavík mundu kosta verulegar fjárhæðir. Ef mögulegt yrði að fá afnot af mannvirkjum NATO í Helguvík drægi það hins vegar úr kostnaði og er augljóslega besti kosturinn. Að lokum er rétt að benda á að aðstaðan í Helguvík yrði eingöngu notuð undir eldsneyti fyrir flugið en bensín, gasolía og steinolía yrði áfram flutt landleiðina til Voga samkvæmt upplýsingum sem samgönguráðuneytið hefur frá þeim aðilum sem sinna þessum flutningum og sinna sölu á eldsneyti.

Í fjórða lagi er spurt: „Ef fyrirhugaðar eru aðgerðir af hálfu ráðherra, hverjar eru þær og hvenær er þeirra að vænta?“

Eins og fram hefur komið er það í höndum utanríkisráðuneytisins og varnarliðsins að leita leiða og finna lausn á því að nýta aðstöðuna í Helguvík sem ég tel að sé augljóslega besti kosturinn.

Það sem snýr að samgönguráðuneytinu er auðvitað fyrst og fremst tvöföldun Reykjanesbrautarinnar til að bæta þessar aðstæður og auka öryggið. Að því verki er nú unnið og sér fyrir endann á því. En ég vil að lokum undirstrika að ég tel að það eigi að leita allra leiða til að draga úr slíkum flutningum á þessum meginumferðaræðum og Helguvíkurhafnarlausnin væri besti kosturinn og vonandi getur það gerst sem fyrst.