132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Eldsneytisflutningar til Keflavíkurflugvallar.

261. mál
[12:32]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Frú forseti. Árlega fara hundruð bíla, þungra olíuflutningabíla með tengivagna frá olíubirgðastöðinni í Reykjavík til Keflavíkurflugvallar með flugvélaeldsneyti. Hver þessara bíla slítur veginum á við nokkur þúsund einkabíla. Því má segja með sanni að slíkir flutningar kosti ríkissjóð árlega tugi ef ekki hundruð millj. kr. Þar að auki fara þessir bílar nærri aðalvatnsbólum Suðurnesjabúa og þarf ekki að fara mörgum orðum um hvaða áhrif slys þar hefði. Samtímis þessu liggur við að aðstaða er að skapast í Helguvík eins og ráðherra vék að. Ég fagna þeirri undirtekt sem kom fram í máli ráðherra um að stefna að því að færa þessa flutninga til Helguvíkur, spara þar með ríkisvaldinu milljónir króna, draga úr mengunarhættu og auka skilvirkni í alla staði. Með öðrum orðum, öll rök mæla með því að svokölluð Helguvíkurleið verði farin og (Forseti hringir.) ég fagna stuðningi hæstv. ráðherra við þær hugmyndir.