132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Eldsneytisflutningar til Keflavíkurflugvallar.

261. mál
[12:33]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Það var gott að heyra að hæstv. ráðherra tekur undir að leitað verði allra leiða til að minnka eða draga verulega úr flutningum á eldsneyti eftir Reykjanesbraut frá höfuðborgarsvæðinu til Suðurnesja. Eldsneytið sem um ræðir er talsvert miklu meira en þau 80 þús. tonn sem um er talað í fyrirspurninni og full ástæða til að reyna að draga úr þeim flutningum eins og hægt er.

Aftur á móti fannst mér þegar hæstv. ráðherra ræddi Helguvíkurleiðina sem við köllum svo, þ.e. að nota tanka í Helguvík sem eldsneytisbirgðastöð fyrir flugvélabensín aðallega, að þá væri ágætisvilji til að styðja það. En mér fannst hæstv. ráðherra ekki kveða nægilega fast að orði um að hann sem samgönguráðherra mundi beita sér fyrir eða þrýsta á að sú leið verði farin. Hæstv. ráðherra vísaði ábyrgðinni yfir á utanríkisráðuneytið og varnarliðið. Sagðist styðja að reynt yrði að finna leið til að hægt væri að taka þetta upp sem fyrst. En mér finnst vanta að hæstv. ráðherra segi okkur að hann ætli að beita sér fyrir því eða þrýsta verulega á að sú leið verði farin. (Forseti hringir.)