132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Eldsneytisflutningar til Keflavíkurflugvallar.

261. mál
[12:35]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Hér er fyrirspurn frá Magnúsi Þór Hafsteinssyni um eldsneytisflutninga til Keflavíkurflugvallar. Eins og hefur komið fram í máli þingmanna heyrist mér allir vera sammála um að það sé auðvitað algjör della að vera að flytja allt þetta eldsneyti frá Örfirisey og til Keflavíkur. Ég varð líka fyrir dálitlum vonbrigðum með svör hæstv. samgönguráðherra vegna þess að þetta er ekkert nýtt mál sem var að koma upp í gær og mér finnst málin ganga heldur hægt hérna. Auðvitað á að skikka herinn til að láta af hendi þessa tanka sem þeir eru hvort sem er ekkert að nota. Ef ekki vill betur þá legg ég til að við þjóðnýtum þá aðstöðu sem þarna er. Herinn er hvort sem er á leiðinni burtu og farið hefur reyndar fé betra.