132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Viðhald vegarins á milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur.

275. mál
[12:42]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Í morgun var ein fyrsta fréttin í útvarpinu að Óshlíðin milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar væri lokuð vegna snjóflóðahættu og þegar ég opnaði Bæjarins besta í tölvunni blasti við frétt um að bíll hefði lent í flóðinu þar í morgun. Þetta snjóflóð féll á jaðri þess svæðis sem áætlað er að fari í göng samkvæmt áætlun ríkisstjórnarinnar og kemur af völdum austnorðaustanáttar sem almennt er ekki talin hættuleg á þessu svæði gagnvart snjóflóðum. Í gær féll flóð á stað þar sem flóðavörn er fyrir hendi en hluti þess fór engu að síður á veginn. Hættulegustu áttirnar eru norðan og norðvestan en í þeim áttum safnast mikill snjór víða á þessari leið og ómögulegt að verjast flóðum eins og dæmin sanna. Auk snjóflóða fellur grjót iðulega á veginn og eins og við munum var það einmitt grjóthrun sem kom að stað þeirri hreyfingu sem þó er á málinu núna. Þetta er á vegi sem ungmenni fara á leið sinni í skóla, margir aka til og frá vinnu og til að sækja þjónustu til Ísafjarðar. Ríkisstjórnin ákvað að setja fjármagn til jarðgangagerðar á milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur en því miður er ekki fyrirhugað að fara þá leið sem tryggja mundi til fulls öryggi vegfarenda heldur aðeins öryggi af broti á leiðinni.

Það er andstætt vilja mikils hluta íbúanna sem manna best þekkja til aðstæðna og getur ekki talist fullnægjandi úrlausn og allra síst eftir að upplýsingar Hörpu Grímsdóttur hjá Snjóflóðasetri Veðurstofunnar komu fram. Þær leiddu í ljós mun meiri áhættu við ferðalög á þessu svæði en áður var talið. Það er í raun ósmekklegt að ræða peninga í sömu mund og framkvæmdir sem tryggja eiga líf og heill samborgaranna en þó nauðsynlegt þar sem fjárhagsleg rök eru borin fram fyrir áætlun ríkisstjórnarinnar.

Ef farin verður sú gangaleið sem fyrirhuguð er í dag, sem ég vona að verði ekki niðurstaðan, stendur eftir kostnaður við viðhald á stærsta hluta leiðarinnar milli byggðarkjarnanna. Það verður að koma inn í reikningsdæmið þegar mismunandi jarðgangakostir eru metnir auk þess sem taka verður með í reikninginn að mörg göng eru hlutfallslega dýrari en jafnlengd í einum göngum vegna þess hve gangamunnarnir eru dýrir. Ég spyr því:

1. Hver hefur verið árlegur kostnaður við viðhald vegarins á milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur sl. fimm ár?

2. Hver var viðhaldskostnaðurinn a. vegna ofanhruns, b. vegna sjávarrofs og hruns úr vegi?

3. Hvernig skiptist fyrrgreindur kostnaður á a. þann kafla sem fyrirhugað er að leggist af við gerð jarðganga samkvæmt núverandi hugmyndum, b. aðra hluta vegarins sem verða áfram í núverandi vegstæði?