132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Eldi á villtum þorskseiðum.

185. mál
[13:14]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég tel ekkert því til fyrirstöðu að heimila frekari veiðar á seiðum til áframeldis. Þessar veiðar munu einfaldlega, þar sem af er tekið, auka lífslíkur seiðanna sem eftir verða í náttúrunni. Ég held að það sjái varla högg á vatni þótt veitt sé miklum mun meira. Ég tel að menn eigi ekki að hafa áhyggjur af þessum málum.

En hvað varðar fullyrðingar sem hafa komið fram, um að allir þorskstofnar séu að dragast saman í heiminum þá er það ekki rétt. Það kom m.a. fram í máli hv. fyrirspyrjanda. Við sjáum að það eru einfaldlega sveiflur í fiskstofnum. Í Barentshafi hafa menn ítrekað spáð hruni. Í Færeyjum eru einfaldlega sveiflur og alls ekki hrun. Ég hef fylgst með umræðunni um að allt horfi til verri vegar og að eina leiðin út úr vandanum sé fiskeldi á þorski og jafnvel þurfi að veiða loðnu til að gefa fiskinum að éta. Ég er á því að við séum að algerum villigötum í þeirri umræðu. Við eigum miklu frekar að leitast við að stjórna betur veiðum á (Forseti hringir.) villtum fiski en við höfum gert.