132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Eldi á villtum þorskseiðum.

185. mál
[13:16]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Hv. þm. Sigurjón Þórðarson sagði að það væri kannski orðum aukið að stofnar væru allir á niðurleið. Það er alveg rétt hjá honum. Stöku þorskstofnar kunna að vera í þokkalegu standi. Hins vegar virðist þetta vera línan mjög víða og ég óttast að það hvernig við höfum hagað veiðum okkar hafi breytt arfgerð stofnanna sem leiðir til þess að erfitt verður að ná þeim upp í fyrri stöðu aftur. Ég vil hins vegar þakka hæstv. sjávarútvegsráðherra þau svör sem hann gaf. Ég finn að hann er áhugamaður um þetta. Ég vara hann hins vegar við því að taka of mikið mark á Hafró í þessum efnum. Ég tók eftir því að það speglaðist ákveðin íhaldssemi í orðum sem hann hafði eftir sérfræðingum Hafró. Þeir vara við að farið sé í þessar veiðar, þær eigi einungis að vera tímabundnar, sérstaklega ef farið er að sækja lengra fram á haustið. En það hefur enginn talað um það. Það er einungis verið að tala hér um veiðar á þeim tíma sem afföllin verða mest. Ég rifja það upp að íhaldssemin hjá Hafró hefur verið svo mikil að það hefur nánast þurft að klípa út með glóandi töngum leyfi til að veiða villt þorskseiði í þessum tilgangi.

Ég segi því við hæstv. sjávarútvegsráðherra að ef hann ætlar sér að verða frumkvöðull á þessu sviði og hjálpa öðrum frumkvöðlum þá á hann að gæta sín mjög á ráðleggingum Hafró og leita frekar ráða í þessum sal. Ég tel að hér séu margir menn sem geti hjálpað honum í þeim efnum.

Ég er þeirrar skoðunar að framtíðin í þorskeldi muni byggjast á kynbættum þorski. En ég tel að það sé langt í land að við náum það vel kynbættum stofni að það skipti verulegu máli og miða ég þá við reynsluna af laxeldi. Fram að þeim tíma held ég að við eigum að þróa þorskeldi með þessum hætti. Ég fór fyrir nokkrum dögum austur á Eskifjörð þar sem menn eru að ala áfram seiði sem koma úr Nauteyrinni. Það gengur vel. Verðið er gott og það kemur líka fram að þorskur sem er alinn í kvíum verður öðruvísi í laginu. Hnakkastykkið, sem er dýrast, (Forseti hringir.) verður miklu dýpra og stærra. Ég held, frú forseti, að hér sé um að ræða atvinnugrein sem gæti orðið vel arðvænleg í framtíðinni.