132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Jafnstöðuafli.

316. mál
[13:24]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi þakka hv. þingmanni að bera fram þessa spurningu sem er eftirfarandi:

„Hver er afstaða ráðherra til jafnstöðuafla, þ.e. þess að ákvarða til lengri tíma en eins árs, t.d. þriggja eða fimm ára, heildarafla sem veiða má úr nytjastofnum sem nauðsynlegt er talið að takmarka veiðar á?“

Þessi fyrirspurn á rætur að rekja til umræðu sem hefur átt sér stað um langt skeið og einkanlega hér á árum áður meðal hagsmunaaðila í sjávarútvegi og annarra sem láta sjávarútveg til sín taka. Þetta er að mínu mati mjög eðlileg og áhugaverð spurning og sjálfsagt að taka þessi mál til umræðu fordómalaust. Með jafnstöðuafla er hér átt við fastsetningu aflamarks til lengri tíma. Ástæðurnar fyrir þessari umræðu eru einkum af þrennum toga eftir því sem mér sýnist.

Í fyrsta lagi finnst sumum óeðlilegt að verið sé að breyta aflamarki frá ári til árs þegar þekkingarstigið er ávallt háð tiltekinni óhjákvæmilegri skekkju.

Í öðru lagi hefur verið litið til setningar fasts aflamarks til nokkurra ára þar sem slíkt er afar eftirsóknarvert við skipulag veiða, vinnslu og sölu afurða. Mig minnir að það hafi ekki síst verið það sem lá til grundvallar þegar menn lögðu fram þessar hugmyndir á sínum tíma.

Í þriðja lagi er það viðhorf uppi að þar sem ekki hafi tekist að stýra veiðum með árlegu aflamarki á grundvelli ráðlegginga Hafrannsóknastofnunar beri að reyna eitthvað nýtt, svo sem að fastsetja aflamark yfir nokkurra ára tímabil.

Ég ætla fyrst og fremst að dvelja við fyrstu tvö atriðin sem ég tel að vert sé að gera grein fyrir. Það er að eðlilegra sé að fastsetja aflamark til þriggja til fimm ára frekar en að breyta ráðgjöfinni árlega þegar þekkingarstigið er takmörkunum háð og við erum líka háð skipulagi veiða, vinnslu og sölu afurða. Meðal annars sé ekki eðlilegt að gera smávægilegar breytingar á aflamarki þegar óvissan er töluverð. Eins og nú er háttað helgast slíkar breytingar á aflamarki fyrir þorsk á árlegri stofnúttekt þar sem aflamarkið miðast við miðgildi stofnmarks sem er umlukið óvissu. Þannig getur aflamarkið hækkað eða lækkað smávægilega á milli ára þó svo að breytingarnar séu vel innan skekkjumarka matsins. Þetta skiptir þó ekki sköpum varðandi nýtingu og skipulag en kann að sýnast óeðlilegt.

Ef hins vegar er sóst eftir því að jafna afla á milli ára, fastsetja aflamark til nokkurra ára, án þess að auka áhættu, þarf að stilla veiðunum meira í hóf og hugsanlega sætta sig við minni afla. Röksemdafærslan gekk reyndar út á það fyrir nokkrum árum. Menn töldu að með þessu væri verið að sætta sig við að sveiflurnar færu ekki upp á við. Mönnum var þetta alveg ljóst á sínum tíma. En hins vegar væri þá dýfan ekki jafnskörp niður á við heldur. Það er ljóst að áhættan af fastsetningu aflamarks til nokkurra ára, þriggja til fimm ára, eins og fram kemur í fyrirspurninni, er meiri eftir því sem fiskurinn er skammlífari því þá eru veiðarnar háðar færri aldurshópum og þar með árgöngum. Loðnuveiðar eru gott dæmi um þetta, þær eru að langmestu leyti bornar uppi af einum árgangi. Það væri ekki ráðlegt að stilla upp sama aflamarki til þriggja til fimm ára fyrir loðnuveiðar þar sem hrygningarstofninn auk veiða á vertíð hefur sveiflast frá 250 þús. tonnum til 2 millj. tonna síðustu áratugi. Þegar einn lélegur árgangur kemur inn í veiðistofninn, hvað þá tveir eða fleiri í röð, gætu of miklar veiðar haft alvarlegar afleiðingar eins og átti sér stað á árunum eftir 1980. Ef nýta á stofninn af skynsemi er nauðsynlegt að hafa á hverri vertíð mælingu á því sem óhætt er að veiða og ég held að um það sé í sjálfu sér enginn ágreiningur.

Við langlífari tegundir eins og þorsk er áhættan af fastsetningu aflamarks til nokkurra ára ekki eins mikil. Það blasir auðvitað við. Áhættan markast hins vegar af því hversu góð spáin um nýliðun er á því tímabili sem á að fastsetja aflamarkið og raunverulegri sveiflu í nýliðun frá ári til árs. Eftir því sem sveifla í nýliðun og óvissan er meiri þeim mun varlegar virðist þurfa að fara við setningu aflamarks til nokkurra ára. Við fyrstu sýn gæti virst að minnka þyrfti afla árlega svo áhætta sé viðunandi þó svo að nauðsynlegt sé að gera sérstaka greiningu á þessu áður en slíkt er fullyrt. Það er líka ástæða til að vekja athygli á því í þessu sambandi að hugmyndir um jafnstöðuafla eiga að mínu mati miklu frekar við þegar verið er að tala um tiltölulega stóran veiðistofn. Ef við erum að tala um lítinn veiðistofn er augljóst mál að það að fastsetja aflamarkið skapar ákveðna áhættu gagnvart veiðunum í tiltölulega minni veiðistofni. Þegar þessi umræða fór fram fyrir nokkrum árum voru menn væntanlega miklu frekar að tala um stærri veiðistofn heldur en hann er í dag. Ég árétta að veiðistofninn er að mínu mati ekki í neinni hrunhættu en á árum áður var þorskstofninn stærri.

Þessi umræða er áhugaverð. Það eru á henni margir fletir. En við þær aðstæður sem nú eru treysti ég mér ekki til að leggja til jafnstöðuafla gagnvart þorski.